*

Bílar 31. janúar 2017

Nýr Nissan 370Z á leiðinni

Nú er Nissan að undirbúa nýja kynslóð þessa Nissan 370Z.

Fáir bílar geta státað af því að hafa verið óbreyttir í tæp 10 ár. En sportbíllinn Nissan 370Z getur það með góðri samvisku. Nú er Nissan hins vegar að undirbúa nýja kynslóð þessa skemmtilega sportara.

Það hlýtur að vera til marks um vel heppnaða hönnun og ákveðnar vinsældir að Nissan hefur ekki viljað skipta bílnum út fyrr. Sjötta kynslóð Nissan Z bíla hefur verið til sölu allt frá árinu 2008. Nýja kynslóð bílsins verður allmikið breytt en svipaður að stærð.

Öflugasta gerð nýja sportbílsins verður með 3,0 lítra vél með tveimur forþjöppum og skilar um 400 hestöflum og 470 Nm togi sem ætti að gera hann mjög spennandi. Grunngerð bílsins verður með aflminni 300 hestafla vél sem er þó í grunninn sama vélin. Þá mun bíllinn einnig koma í Plug-In-Hybrid útfærslu. Undirvagninn mun vera sá sami og er í Infinity Q60 sem tilheyrir lúxusbílaarmi Nissan og því hæg heimatökin. Bíllinn verður með tveggja kúplinga sjö gíra sjálfskiptingu. SNissan hyggst kynna bílinn á bílasýningu Tokyo Motor Show í Japan í október og stefnt er að því að hann komi á markað í lok árs 2018.

Stikkorð: Nissan  • nýr  • 37OZ