*

Bílar 25. júlí 2014

Nýr og aflmikill Volvo XC90 á leiðinni

Volvo XC90 verður fáanlegur með tvinn-vél sem mun bera heitið T8.

Nýr Volvo XC90, sem verður frumsýndur seinna á þessu ári, mun bjóða upp á mikið afl en á sama tíma mjög lága eldsneytiseyðslu og koltvísýringslosun miðað við svo stóran bíl.

Líkt og fyrirrennarinn verður XC90 fjórhóladrifinn og sjö sæta en það sem er fréttnæmast er að hann verður fáanlegur með 400 hestafla vél sem losar aðeins 60 g/km.

Volvo XC90 verður einnig fáanlegur með tvinn-vél sem mun bera heitið T8. Þar er á ferðinni tengiltvinnbíll og „high-performance“ bíll sameinaður í einum og sama bílnum. Venjulegur akstur fer fram í sjálfgefnu tvinn-drifi. Framhjólin eru drifin af tveggja lítra, fjögurra strokka Drive-E bensínvél með keflablásara og afgasforþjöppu. Afturhjólin eru drifin af 80 hestafla rafmótor. Drægni rafmótorsins er um 40 km. Þegar þörf krefur er aftur skipt yfir í bensínvélina og rafmótorinn sem saman skila 400 hestöflum og 640 Nm togkrafti.

Margar vélar í boði

Volvo XC90 verður einnig í boði með D5 dísilvél með tveimur forþjöppum sem er 225 hestöfl með 470 Nm togi. Eldsneytiseyðslan er aðeins 6 l/100 km. Eins verður í boði D4 dísilvél sem er 190 hestöfl með 400 Nm togi sem eyðir einungis 5 l/100 km. Sú útgáfa verður einungis fáanleg framhjóladrifinn og verður því ekki í boði á Íslandi. Eldsneytiseyðsla þessara véla er sú lægsta meðal jeppa í þessum flokki.

Einnig verða í boði tvær bensínvélar. Annars vegar T6 vél með keflablásara og afgasforþjöppu. Hún skilar 320 hestöflum og 400 Nm togi. Einnig verður í boði T5 vél sem er 254 hestöfl með 350 Nm togi. Volvo hefur nýlega þróað nýja gerð af 8 þrepa sjálfskiptingu sem verður í öllum nýjum XC90. Nýja sjálfskiptingin var fyrst kynnt í Volvo S60, V60, S80 og V70 núna á vormánuðum.

Stikkorð: Volvo