*

Hitt og þetta 26. apríl 2006

Nýr og ítarlegur vefur Almenna lífeyrissjóðsins

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur tekið í notkun nýjan vef. Meðal nýjunga má nefna ítarlegri upplýsingar um ávöxtun sjóðsins, sjóðfélagar geta bókað tíma hjá ráðgjafa, launagreiðendur geta skilað inn skilagreinum á opnum vef. Nýi vefurinn verður formlega opnaður á ársfundum Almenna lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs lækna sem haldnir verða fimmtudaginn 27. apríl á Nordica hótelinu í Reykjavík.

Mikil vinna var lögð í uppsetningu vefjarins með það að leiðarljósi að auðvelt væri að finna upplýsingar og rekja sig áfram við lausn á helstu viðfangsefnum hverju sinni. Með tilkomu nýju vefsíðunnar hefur heimasíðu Lífeyrissjóðs lækna, www.llaekna.is, verið lokað.

Á vefsíðu Almenna lífeyrissjóðsins geta sjóðfélagar fylgst með fréttum frá sjóðnum og lesið um starfsemi hans og þjónustu við sjóðfélaga. M.a. geta sjóðfélagar sótt umsóknir um lán og lífeyri, sent fyrirspurnir til ráðgjafa, pantað tíma hjá ráðgjafa eða óskað eftir að ráðgjafi hafi samband og veiti ráðgjöf um lífeyrismál. Launagreiðendur geta sótt upplýsingar um greiðslu iðgjalda og sent skilagreinar til sjóðsins.

Sjóðfélagar geta skoðað netyfirlit í Netbanka Glitnis þar sem þeir geta fylgst daglega með upplýsingum um inneign og lífeyrisréttindi auk þess að reikna dæmi í reiknivél sem tengd eru við þeirra eigin upplýsingar. Auk netyfirlita geta sjóðfélagar skoðað upplýsingar um öll lán sem þeir eru með hjá Almenna lífeyrissjóðnum. Fyrir einstök lán er hægt að skoða upplýsingar um gjalddaga og greiðslur sem síðan eru nánar sundurliðaðar í afborganir, vexti, dráttarvexti, verðbætur og kostnað.

Ávöxtun Almenna lífeyrissjóðsins hefur verið afar góð á árinu og hafa ávöxtunarleiðir sjóðsins hækkað um 3,4-14,1% það sem af er þessu ári og um 9,3-28,6% sl. eitt ár. Sjóðfélagar geta fylgst daglega með ávöxtun sjóðsins á hinum nýja vef en þar er m.a. tafla sem uppfærist daglega og sýnir ávöxtun sl. 6. mánuði, 1 ár, 3 ár og 5 ár.