*

Bílar 15. febrúar 2013

Nýr og krafmikill GL-Class lúxusjeppi

Nýr lúxusjeppi undir merkjum Mercedes Benz verður frumsýndur hér á landi á morgun.

Róbert Róbertsson

Nýr og kraftmikill Mercedes-Benz GL-Class er kominn fram á sjónarsviðið. Þessi sjö sæta lúxusjeppi verður búinn nýjum og endurbættrum vélum, bæði fyrir dísel og bensín, sem munu bjóða upp á aukinn kraft samfara því að verða sparneytnari og umhverfismildari en forverinn.

GL350 BlueTEC 4MATIC verður með þriggja lítra V6 díselvél sem skilar 258 hestöflum og 620 Nm í togi. Eyðslan er aðeins um 7,4 lítrar í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. GL500 verður með 4,7 lítra V8 bensínvél sem skilar 435 hestöflum og 700 Nm í togi. Hinn geysiöflugi GL 63 AMG 4MATIC skilar 557 hestöflum og togið er alls 760 Nm. Jeppinn er aðeins 4,9 sekúndur í hundraðið sem eru ótrúlegar tölur miðað við svo stóran bíl.

Mercedes-Benz leggur mikið upp úr því að gera þennan nýja lúxusjeppa sem bestan úr garði og er hvergi slegið af vandaðri hönnun og gæðum. Meðal staðalbúnaðar má nefna sérlega þægilegt Artico leðuráklæði, loftpúðafjörðun, rafdrifinn afturhlera og sóllúgu. Þá er rafdrifin uppsetning á öftustu sætaröð. Mikið er lagt upp úr öryggi og má nefna hliðarvindsvörnina Crosswind Assist en þetta kerfi er nýjung. Það auðveldar m.a. akstur í hliðarvindi.

Nýja kynslóðin af GL-Class verður frumsýnd í Öskju á morgun, laugardag kl. 12-16.