*

Bílar 13. september 2012

Nýr og nettur sendibíll frá Mercedes-Benz

Þýsku bílasmiðirnir kynna nýjan sendiferðabíl í mánuðinum. Mercedes-Benz ætlar sér að ná aftur í skerf af atvinnubílamarkaðnum.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz kynnir síðar í þessum mánuði nýjan sendibíl sem fengið hefur nafnið Citan. Bíllinn hefur verið á hugmyndastigi í mánuði en er nú kominn í framleiðslu hjá þýska bílaframleiðandanum.

Mikil eftirvænting mun vera eftir bílnum, bæði vegna þess að Daimler hefur ekki verið með sendibíl um nokkurt skeið í þessum stærðarflokki og þá á Citan að vera sérlega hagkvæmur í rekstri. Citan mun vera nettur en öflugur sendibíll og er ætlað að efla sölu Mercedes-Benz enn frekar í flokki atvinnubíla. Aukinn markaður er fyrir bíla í þessum geira á mörgum markaðssvæðum og stefnir Mercedes-Benz á aukna markaðshlutdeild með tilkomu Citan. Fyrir er þýski lúxusbílaframleiðandinn með breiða línu sendibíla, s.s. Vario, Sprinter og Vito. Sprinter hefur til að mynda verið afar vinsæll og traustur bíll hér á landi.

Hinn nýi Citan mun vera hagkvæmur og umhverfisvænn samkvæmt upplýsingum frá Daimler. Citan verður í boði með eyðslugrönnum dísil- og bensínvélum sem allar hafa frekar lága koltvísýringslosun. Citan verður vel búinn m.a. með Blue EFFICIENCY búnaði eins og nýir lúxusbílar Mercedes-Benz eru búnir en búnaðurinn eykur á sparneytni bíla og minnkar útblástur skaðlegra lofttegunda frá þeim.

Citan verður einnig boðinn í ýmsum útgáfum, m.a. sem fjölnotabíll. Hægt verður að panta Citan í mismunandi lengd og hæð sem býður upp á fjölmarga notkunarmöguleika. Citan verður frumsýndur á IAA atvinnubílasýningunni í Hannover síðar í þessum mánuði en samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz á Íslandi, er stefnt að því að sendibíllinn komi hingað til lands í nóvember.

Stikkorð: Mercedes-Benz