*

Bílar 9. júlí 2016

Nýr og óvenjulegur bíll frá Toyota

Toyota frumsýndi á dögunum bíl í Mílanó sem ber heitið C-HR. Þetta er glænýr bíll og mjög ólíkur öðrum Toyota bílum.

Þetta er sportlegur bíll með kraftmiklar línur og fangar óneitanlega athyglina. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins var viðstaddur frumsýninguna á bílnum í hönnunarsafni í Mílanó á dögunum. Það var á margan hátt vel við hæfi að C-HR var frumsýndur í þessari borg hátískunnar því með þessum nýja bíl koma ferskir vindar og línur sem við höfum ekki beinlínis séð áður í bílaheiminum.

Þannig séð stendur C-HR svolítið sér á parti og fær auka athygli út á það. C-HR er framúrstefnulegur í hönnun. Fallega lagað húddið er látið flæða yfir brettalínuna sem gefur bílnum kröftugt útlit sem fer vel með áberandi framljósunum og demantslaga grillinu. Laglega mótaðar hurðirnar mæta svörtum hurðarpóstum sem gefa toppnum skemmtilega fljótandi útlit. Bogalaga afturljósin og LED-stefnuljósin setja flottan svip á bílinn ásamt vel hönnuðum afturstuðara. Handföngin á afturhurðunum eru efst í horninu og svolítið falin þannig að við fyrstu sýn virðist bíllinn vera þriggja dyra.

Innanrýmið er laglegt og nokkuð ólíkt því sem Toyota hefur boðið upp á bílum sínum. Plássið er gott og raunar kemur á óvart hversu mikið höfuð- og fótapláss er afturí bílnum. Farangursrýmið er þokkalegt.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Bílar, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Toyota