*

Bílar 26. desember 2019

Nýr og tæknivæddari Marco Polo

Ný útfærsla Mercedes-Benz Marco Polo er mun tæknivæddari en áður og er fáanleg í þremur útfærslum.

Róbert Róbertsson

Ný útfærsla af Mercedes-Benz Marco Polo er komin á markað og verður hægt að forpanta bílinn á næstu vikum hjá Bílaumboðinu Öskju. Marco Polo kom fyrst á markað fyrir fjórum árum og hefur verið vinsæll hér á landi sem og víðar.

Marco Polo sameinar kosti fjölskyldu- og ferðabíls með einstaklega rúmgóðu farþegarými og gistiplássi fyrir allt að 5 manns. Segja má að hann sé hinn fullkomni ferðafélagi fyrir útileguna, næturgistingu og helgarfrí fjarri hversdagsins amstri.

Marco Polo er kominn með nýja 9G-Tronic sjálfskiptingu og er mun tæknivæddari en áður með hinu háþróaða MBUX margmiðlunarkerfi með 10,25 tommu snertiskjá. Kerfið tryggir þægilegan akstur og góða afþreyingu fyrir þá sem vilja. Meðal annars hátæknibúnaðar sem í boði er má nefna Garmin® MAP PILOT leiðsögukerfi og bílastæðakerfi með sjálfstýringu sem stýrir Marco Polo með minnstu fyrirhöfn inn í bílastæði. Meðal yfirgripsmikils öryggisbúnaðar má nefna ATTENTION ASSIST athyglisvara sem heldur ökumanni við efnið meðan á akstri stendur.

Marco Polo er fáanlegur í þremur útfærslum; Marco Polo Activity, Marco Polo og Marco Polo Horizon. Marco Polo er einnig fáanlegur útbúinn smáeldhúsi með tveimur gashellum, kæliskáp, vaski og margs konar geymsluhirslum. Í honum er felliborð þegar sest er að snæðingi innandyra en auk þess er hægt að fá tjaldborð og fellistóla þegar matast er úti undir beru lofti. Það er einnig innbyggður fataskápur í bílnum með fataslá, hillu og snyrtispegli. Aftursætunum er á einfaldan hátt breytt í þægilegt rúm og ef á þarf að halda er annað tvíbreytt rúm í upphækkanlega þakinu.

Bíllinn er fáanlegur með rafstýrðri ,,easy-up“ hækkun á þakinu sem er mjög einföld í notkun og dregur hvergi úr sportlegu svipmóti þessa laglega ferðabíls.

Marco Polo er í boði með sparneytnum, fjögurra strokka dísilvélum og staðalbúnaður er Agility Control fjöðrunarkerfi. Vélarnar státa af lágmarks eyðslu og fjöðrunarkerfið stuðlar að aksturseiginleikum sem einkennast af fágun eins og Mercedes-Benz er þekkt fyrir. Marco Polo kostar frá 12.490.000 kr og fæst bæði afturdrifinn og með hinu fullkomna 4MATIC fjórhjóladrifi frá Mercedes-Benz.