*

Bílar 9. ágúst 2018

Nýr Opel Grandland X frumsýndur

Opel Grandland X er flaggskip Opel í flokki sportjeppa en þar eru fyrir Opel Crossland X og Mokka X.

Róbert Róbertsson

Nýr Opel Grandland X verður frumsýndur í sýningarsal Opel Krókhálsi 9 nk. laugardag klukkan 12-16.

Opel Grandland X er flaggskip Opel í flokki sportjepplinga en þar eru fyrir Opel Crossland X og Mokka X. Crossland X hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur hér á landi en hann var frumsýndur nú í vor. Mokka X er einn mest seldi bíllinn í Evrópu í þessum flokki sem fer ört stækkandi um allan heim.

Grandland X er stærstur af þessum þremur bílum og kemur hingað til landsins til að byrja með í tveimur útfærslum, Enjoy og Innovation. Báðar útfærslurnar eru ríkulega búnar en meira af staðalbúnaði er að finna í Innovation. Báðar útfærslurnar af Grandland X sem koma hingað til lands eru framhjóladrifnar. 

1,2 lítra Pure tech bensínvélin sem er í Grandland X var valin vél ársins 2018 en hún þykir sparneytin og umhverfismild. Vélin skilar 130 hestöflum og hámarkstogið er 230 Nm. Eyðslan er aðeins frá 5,2-5,3 lítrar á hundraðið miðað við blandaðan akstur.

Nýr Grandland X er fallega hannaður bæði að innan sem utan. Opel hefur lagt mikið í hönnun á innanrými sportjepplingsins og hefur tekist vel til. Grandland X er mjög rúmgóður að innan fyrir farþega bæði frammí og afturí. Þá er farangursrými bílsins mjög rúmgott.