*

Bílar 4. júlí 2014

Nýr Passat frumsýndur í haust

Nýr Passat verður mun léttari en fyrri útgáfur og verður meðal annars boðinn í hybrid útgáfu.

Ný kynslóð af hinum vinsæla Volkswagen Passat er væntanleg og verður frumsýnd á bílasýningunni í París í haust. Áttunda kynslóð Passat er byggð á MQB undirvagninum en við það hefur bíllinn lést um 85 kíló.

Útlitsbreytingar eru all nokkrar þótt línurnar séu mýkri og rennilegri. Nýi bíllinn er búinn mun meiri tæknibúnaði en forverinn eins og búast má við. Þá á nýi bíllinn að vera 20% sparneytnari en forverinn. Hann verður boðinn meðal annars sem tvinnbíll, og er það í fyrsta sinn í sögu Passat. Í þeirri útgáfu verður að finna 1,4 lítra TSI-vél sem skilar 154 hestöflum og auk þess 107 hestafla rafmótor, sömu gerðar og er í Golf GTE.

Nýjar vélar verða í boði, m.a. 237 hestafla tveggja lítra TDI BiTurbo vél sem er öflugri en dísilvélar í Passat til þessa, eða sem nemur 62 hestöflum og 120 Nm í togi til viðbótar. Þá verða einnig í boði 118 hestafla 1,6 lítra TDI vél sem og tvær tveggja lítra vélar sem skila 148 og 188 hestöflum.

Stikkorð: Passat