*

Bílar 15. janúar 2016

Nýr Porsche 911 frumsýndur

Þrjú bílaumboð verða með bílasýningar næsta laugardag en nýir bílar frá Porsche, Skoda, Audi og Suzuki verða frumsýndir.

Það verður nóg um að vera í bílageiranum á morgun laugardag en þrjú bílaumboð verða með frumsýningar á nýjum bílum. Porsche 911, Skoda Superb, Audi RS7 og Suzuki Vitara S verða allir kynntir til leiks á morgun.

Glænýr Porsche 911

Fyrst skal nefna að nýr Porsche 911 verður frumsýndur hjá Bílabúð Benna á morgun kl. 12-16. Sagt hefur verið að eini bíllinn sem geti slegið út Porsche 911 sé nýr Porsche 911. Nýlega kynnti Porsche til sögunnar nýja kynslóð af þessari goðsögn sportbílanna. 
Það vantar ekki aflið í þennan nýja Porsche 911. 
Sem dæmi skilar nýr Porsche 911 Carrera S, 420 hestöflum og er 3,9 sekúndur í hundraðið. 

Nýr Skoda með SmartLink

Nýr Skoda Superb verður frumsýndur á stórsýningu Heklu á morgun. Um er að ræða þriðju kynslóð þessa vinsæla bíls sem kemur úr smiðju skemmtilegu Skoda fjölskyldunnar. Þetta er rúmgóður og fágaður fjölskyldubíll. Upplýsinga- og afþreyingakerfi í Skoda Superb er til fyrirmyndar og þar ber helst að nefna samskiptatækið SmartLink.

Með SmartLink er hægt að spegla skjá snjallsímans á skjá upplýsinga- og afþreyingarkerfisins. Einnig er hægt að nota spjaldtölvu til að stýra völdum aðgerðum í upplýsinga- og afþreyingarkerfinu með nýja Command smáforritinu. Skoda Superb kemur með nýrri kynslóð véla og hægt er að velja á milli bensín- og dísilvéla. Þá mun Hekla einnig kynna nýja 567 hestafla sportbílinn Audi RS7 og ljóst að margir munu hafa mikinn áhuga á þessum kraftmikla bíl.

Suzuki með öflugri vél

Suzuki umboðið mun á sama tíma á morgun frumsýna nýja Suzuki Vitara S jeppann. Vitara S er sportleg viðbót við Vitara línuna frá japanska bílaframleiðandanum. Hann kemur með nokkuð öflugri 1,4 lítra vél með túrbínu. Þessi vél gefur góða vinnslu við lágan snúning og er sparneytin.