*

Bílar 7. janúar 2022

Nýr rafsendibíll frá Citroën

Citroën hefur gefið út nýjan rafsendibíl, Citroën ë-Berlingo. Bíllinn er væntanlegur til landsins í apríl en forsala er nú þegar hafin hjá Brimborg

Róbert Róbertsson

Citroën ë-Berlingo er nýr rafsendibíll frá franska bílaframleiðandanum. Rafsendibíllinn er væntanlegur til landsins í apríl en forsalan á honum er nú þegar hafin hjá Brimborg. Rafsendibíllinn kostar frá 4.450.000 kr samkvæmt upplýsingum frá Brimborg

Citroën ë-Berlingo er með 50 kWh drifrafhlöðu. Drægni bílsins samkvæmt WLTP mælingu er allt að 275 km. Citroën ë-Berlingo er fáanlegur með eins fasa 7,4 kW eða þriggja fasa 11 kW innbyggðri hleðslustýringu. Það er frekar einfalt og fljótlegt að hlaða sendibílinn heima, í vinnu og á hraðhleðslustöðvum. Hægt er að fullhlaða drifrafhlöðuna á 5-7,5 klukkustundum í öflugri heimahleðslustöð og næstum tóma drifrafhlöðuna má hlaða á 30 mínútum í 80% drægni í 100 kW hraðhleðslustöð.

Citroën e-Berlingo er fáanlegur í tveimur lengdum; L1 og L2. Lengd hleðslurýmis er allt að 2,167 m og með Extenso Cab innréttingu, fellanlegu sæti og lúgu á þili er auðveldlega hægt að flytja allt að 3,44 m langa hluti. Citroën e-Berlingo er fáanlegur með topplúgu að aftan til að flytja langa hluti.

Citroen e-Berlingo er hábyggður og er því með þægilega hleðsluhæð sem auðveldar lestun og affermingu. Rúmmál hleðslurýmis er allt að 3,9 m3 og rúmar auðveldlega tvö vörubretti. Citroën leggur mikla áherslu á fyrirtaks vinnuaðstöðu með góðu aðgengi og hámarks nýtingu. Citroën e-Berlingo er fáanlegur með rennihurð á báðum hliðum. Aðgengi að farmi er einnig gott að aftan þar sem tvískipt afturhurð með 180°opnun er staðalbúnaður. Citroën e-Berlingo er auk þess með allt að 750 kg dráttargetu. 

Stikkorð: Citroen