*

Bílar 21. febrúar 2013

Nýr Range Rover kostar 45 milljónir króna

Hjá bílasölunni Sparibíl er hægt að kaupa nýjan Range Rover jeppa á 45 milljónir króna. Einn Range Rover hefur verið nýskráður í ár.

Nýr Range Rover jeppi með aukabúnaði kostar tæplega 45 milljónir króna hjá bílasölunni Sparibíll. Bíllinn er að árgerð 2013 og var skráður til sölu hjá bílasölunni fyrir tveimur dögum síðan. Bíllinn er erlendis en afhendingartíminn er um 8 til 10 vikur.

Andreas Roth, starfsmaður Sparibíla, segir að almennt sé sala ekki mikil á Range Rover jeppum hérlendis í dag. Þó eru einhverjir viðskiptavinir sem hafi endurnýjað bíla sína að undanförnu. Hann viti um einn jeppa af nýju kynslóðínni sem hefur verið skráður á Íslandi í ár. Það var dísilbíll sem eru töluvert hagstæðari en bensínbílarnir, eins og sá sem nú er til sölu á um 44,5 milljónir króna. Ódýrustu Range Rover jeppar af nýjustu gerð kosta rúmar 20 milljónir, að sögn Andreas.

Um er að ræða Land Rover Range Rover Supercharged V8 Autobiography jeppa. Búnaður bílsins er nokkuð veglegur og ef til vill ekki hægt að búast við öðru miðað við verðmiðann. Framsætin eru upphituð og kæld með 14 rafknúnum stillingum. Hátalarar í jeppanum eru 19 talsins,  hann er á 20" álfelgum, leðurinnréttaður í bak og fyrir og með fimm akstursmyndavélum.

Andreas segir að erlendis hafi nýrri kynslóð Range Rover verið tekið mjög vel og bílaumboðið erlendis eigi erfitt með að anna eftirspurn. Bílarnir seljist oft nokkrum þúsundum evra yfir listaverði.

Hér heima er staðan nokkuð ólík því sem Íslendingar þekktu á uppgangsárunum, þegar Range Rover sást á nærri hverju götuhorni. Andreas segir að um 4 til 5 nýir Range Roverar hafi verið skráðir hérlendis í fyrra. Hann býst við svipuðum fjölda í ár.

Hér má skoða myndir af jeppanum og lesa nánar um hann.

Stikkorð: Range Rover  • Sparibíll