*

Bílar 27. febrúar 2013

Nýr RAV 4 á leiðinni

Nýjasti RAV 4 verður frumsýndur hér á landi um næstu helgi.

Róbert Róbertsson

Toyota RAV 4 hefur verið mjög vinsæll hér á landi undanfarin ár og  kemur nú með gjörbreyttu útliti. Ný kynslóð bílsins verður frumsýnd hér á landi um næstu helgi.

RAV4 er nýr frá grunni, 20 cm lengri en núverandi bíll og að meðaltali 12% eyðslugrennri. Þá verður nýi bíllinn fáanlegur með rafdrifnum afturhlera sem eykur mikið á þægindin. Nýr RAV4 er ríkulega búinn bíll og breytingin á yfirbyggingu og farþegarýminu frá fyrri gerð er mjög greinilegur. Innrétting er mun vandaðri og hljóðeinangrun aukin til muna. RAV4 hentar vel við íslenskar aðstæður, enda er þetta vel búinn fjórhjóladrifsbíll sem nota má jafnt sem fjölskyldu- og ferðabíl.

Jepplingurinn verður boðinn í GX og VX útfærslum. Meðal helsta staðalbúnaðar í GX er 17 tommu álfelgur, þokuljós að framan, regnskynjari, birtuskynjari og bakkmyndavél. Í VX bætast við 18 tommu álfelgur, skyggðar rúður, rafknúin opnun á skotti og aðfellanlegir speglar. Bílarnir eru fáanlegir með 2,0 lítra, 151 hestafla bensínvél og 2,2 lítra, 150 hestafla dísilvél. Bensíngerðin er fáanleg með beinskiptingu og CVT-sjálfskiptingu og dísilbíllinn með beinskiptingu og sjálfskiptingu. 

Grunnverð RAV 4 er 6,3 milljónir kr. Jepplingurinn verður frumsýndur hjá Toyota og umboðsmönnum víða um land.

Stikkorð: RAV 4