*

Bílar 4. apríl 2013

Nýr Renault Clio eykur enn samkeppnina í flokki smábíla

Þótt Clio sé smábíll leynir hann nokkuð á sér að innan og þar er þokkalegt pláss fyrir ökumann og farþega.

Róbert Róbertsson

Enn harðnar samkeppnin í flokki smábíla þegar franski bílaframleiðandinn Renault sendi frá sér fjórðu kynslóðina af Clio nýverið. Þessi nýi franski smábíll fékk m.a. Gullna stýrið undir lok síðasta árs og var einnig í forvalinu fyrir Bíl ársins í Evrópu.

Bíllinn er laglegur á að líta enda eru Frakkarnir fagurkerar þegar kemur að hönnun þótt oft vanti upp á aksturseiginleikana í samanburði fyrir þýsku bílana. Kraftalegar og sportlegar línur eru nokkuð einkennandi og afturhjólin liggja aftarlega.

Þótt Clio sé smábíll leynir hann nokkuð á sér að innan og þar er þokkalegt pláss fyrir ökumann og farþega þótt ekki sé mælt með því að þar séu körfuboltamenn á ferð. Skottið er líka aðgengilegt og heilir 300 lítrar að stærð sem verður að teljast gott fyrir þennan flokk bíla. Með 1,5 lítra dísilvélinni er hann snarpur og fljótur upp og eyðsla dísilvélarinnar er aðeins 3,4 lítrar í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Stikkorð: Renault  • Renault Clio