*

Bílar 19. júní 2020

Nýr Renault Clio frumsýndur

Renault Clio hefur verið endurhannaður með nýjum undirvagni, sportlegri yfirbyggingu og stærra grilli.

Nýr og endurhannaður Renault Clio verður frumsýndur hjá BL við Sævarhöfða á morgun, laugardag kl. 12-16. Renault Clio er einn vinsælasta bíll franska framleiðandans. 

Renault Clio kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1990. Nú, fimmtán milljón eintökum síðar kynnir Renault tæknilega fullkomnasta Clio frá upphafi. Clio hefur fengið nýjan undirvagn og yfirbyggingu sem tekið hefur fáguðum en um leið sportlegum breytingum í ætt við Megane þar sem hönnun vélarhlífar með upphækkuðum miðjuhluta, stærra grilli og endurhönnuðum framljósum kalla fram sterka og fallega nærveru. Um leið hafa hönnuðirnir gætt þess að umturna ekki þeim megineinkennum sem eiga sinn þátt í einstökum vinsældum bílsins sl. þrjátíu ár.

Áhrif nýrrar hönnunar í Clio leyna sér ekki þegar litið er inn í farþegarýmið sem hefur verið endurhannað frá grunni og allt hið fallegasta í ásýnd og efnisvali. Ný sæti, nýr og stærri snertiskjár fyrir upplýsinga- og afþreyingarkerfið og fleira blasir strax við auk stafræns „ökumælis sem leyst hefur af hólmi eldri skjá í mælaborðinu.

Hægt er að velja um nokkrar mismunandi útfærslur á hönnun farþegarýmisins í nýjum Clio. Innra rýmið er meira en í forveranum og má sem dæmi nefna að farangursrýmið er 91 lítra stærra þrátt fyrir örlítið lægri yfirbyggingu sem hefur í för með sér meiri straumlínulögun, aukið loftflæði og sportlegri ásýnd. Í völdum útfærslum er hægt að velja Clio með 17“ felgum og á næsta ári verður hann auk þess fáanlegum í tvinnútgáfu, fyrstur fólksbíla Renault.

Renault Clio var fyrst kynntur til leiks árið 1990 og hefur hann frá upphafi verið vinsælasti smábíllinn í heimalandi sínu auk þess að vera jafnan í 1. eða 2. sæti á Evrópumarkaði í sínum flokki. Clio er einn af einungis þremur fólksbílum í sínum flokki á markaðnum sem tvisvar hefur verið kjörinn „Bíll ársins“ í Evrópu. Á síðasta ári var Clio söluhæstur í sínum flokki í Portúgal og Slóveníu auk Frakklands.

Stikkorð: Renault  • Clio