*

Bílar 21. júlí 2017

Nýr S-Class AMG 3,5 sekúndur í hundraðið

Mercedes-Benz hefur kynnt breyttan S-Class sem fengið hefur létta andlistslyftingu. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins fékk að skoða og reynsluaka nýjum S-Class í Zurich í vikunni.

S-Class er flaggskip Mercedes-Benz og talinn tæknivæddasti fjöldaframleiddi bíllinn í heiminum. Bíllinn er gríðarlega vel búinn aksturs- og öryggiskerfum og með hátæknivæddan búnað sem gerir það að verkum að bíllinn getur stýrt sér að talsverðu leyti sjálfur þótt ökumaður sitji vissulega í ökumannssætinu og passi upp á að allt sé í lagi. Þessi sjálfstýringarbúnaður var prófaður með góðum árangri í Sviss og Þýskalandi í vikunni. Bíllinn leggur sér sjálfur í stæði og var það reynt í bílastæðahúsi á flugvellinum í Zurich einnig með góðum árangri. S-Class er hlaðinn lúxus og þægindum í innanrýminu sem er mjög fallegt og vel hannað.

Aðalmunurinn á nýjum S-Class liggur samt sem áður undir húddinu en bíllinn hefur fengið nýjar vélar bæði í bensín- og dísilútfærslum. S 560 4 MATIC er með 469 hestafla vél sem kemur bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 4,6 sekúndum. Hámrkastogið er 700 Nm. Í gríðarlega öflugri AMG útfærslu, sem prófuð var í Sviss og Þýskalandi í vikunni, er V8 vélin að skila 612 hestöflum og 900 Nm í togi. AMG bíllinn er aðeins 3,5 sekúndur í hundraðið sem er magnað fyrir svo stóran lúxusbíl. Nánar verður fjallað um reynsluakstur á S-Class AMG í bílablaði Viðskiptablaðsins, Bílar, sem kemur út í ágúst.