*

Bílar 6. janúar 2014

Nýr S kominn til landsins

Flaggskipið frá Mercedes-Benz er tæknivæddasti fólksbíll í heimi. Blaðamaður Viðskiptablaðsins hefur prófað bílinn.

Það er sérstök tilfinning að að setjast upp í Mercedes-Benz S-Class. Frá því að bíllinn var frumsýndur í Hamborg í maí hefur ekki verið fjallað meira um nokkurn bíl. Hönnun hans er vel heppnuð. Bíllinn er sportlegri en forverinn en heldur samt því tignarlegu útliti sem hefur einkennt þetta flaggskip lúxusbílaframleiðandans alla tíð. Hér má sjá umfjöllun VB sjónvarp um bílinn.

Bíllinn sem er prófaður er af gerðinni S 350 CDI. Hann er með 3 lítra V6 vél sem skilar 282 hestöflum og sjö þrepa sjálfskiptingu. Meðal útbúnaðar í bílnum eru 26 skynjarar allan hringinn sem senda boð til þriggja tölva. Þegar bakkað er út úr stæðinu má sjá bíllinn á hefðbundinni bakkmyndavél með þeirri viðbót að maður sér nákvæmlega hvert bíllinn stefnir. Einnig sést mynd af bílnum líkt og þyrla sé flögrandi um fyrir ofan með myndavél. Þetta er sérstaklega þægilegt þegar ekið er nálægt gangstéttarköntum og öðru sem skemmt getur felgur, hliðar og undirvagn bílsins.

Verðið á reynsluakstursbílnum er rétt rúmar 24 milljónir. Svipaður bíll af eldri gerð, fyrir fall krónunnar, hefði kostað um 16-17 milljónir og hefur bíllinn því hækkað mun minna hlutfallslega en margir aðrir bílar. Ástæðan er sú að bíllinn lendir í lágum tollflokki vegna lítillar eyðslu, sem er um 5,7 lítrar á hundraði í blönduðum akstri, annað en S500 bíllinn sem verður vart undir 30 milljónum.

Nánar má lesa um bílinn í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Hér að neðan má svo sjá nokkrar myndir af bílnum.

 

 


Stikkorð: Mercedes Benz  • S-Class