*

Tölvur & tækni 25. febrúar 2013

Nýr Samsung Galaxy IV á leiðinni

Samsung sendi boð út á kynningu á nýjum síma á sama tíma og Nokia frumsýndi nýjan Lumia-síma.

Nýjasti farsíminn frá Samsung, Samsung Galaxy IV, verður kynntur 14. mars næstkomandi. Talið er líklegt að hann verði með 4,9 tommu skjá og 13 MP myndavél. Síminn er settur á markað til höfuðs iPhone 5, nýjasta símanum frá Apple, að því er fram kemur á vef breska dagblaðsins Guardian. Apple er með 34% hlutdeld á snjallsímamarkaðnum í Bandaríkjunum og hefur selt 27,4 milljónir iPhone 5 síma um heim allan síðan í fyrra. Á sama tíma hefur Samsung selt 15,4 milljónir stykkja af Samsung Galaxy III. Til samanburðar er Samsung Galaxy III með 4,8 tommu skjá og 8 MP myndavél.

Nýi sími Samsung verður kynntur til sögunnar á ráðstefnu Samsung í Rockefeller Center í New York í Bandaríkjunum. Hulunni hefur ekki verið svipt af nýjum síma þar í þrjú ár. Í fyrra var Samsung Galaxy III kynntur almenningi í London en forverinn í Barcelona á Spáni ári fyrr.

Guardian segir að boð á kynninguna hafi verið sent út í morgun á sama tíma og Nokia sýndi nýjasta símann í Lumia-seríunni.