*

Tölvur & tækni 27. febrúar 2013

Nýr sími frá Nokia með 35 daga rafhlöðu

Nýr farsími Nokia er ætlaður til sölu í löndum eins og Kína og Indlandi og kostar aðeins um 2.500 krónur.

Þegar kemur að nýjum farsímum hafa snjallsímar verið allsráðandi í umræðunni og ekki að undra því óneitanlega er um skemmtilegar græjur að ræða. Það er hins vegar ekki á allra færi að eyða tugum eða hundruðum þúsunda í síma sem líka er leikjatölva og nýr sími Nokia er fyrir þetta fólk.

Síminn er að mörgu leyti svipaður þeim sem gerðu Nokia að risaveldi fyrir tæpum áratug. Skjárinn er lítill en er þó litaskjár. Hann er bara starfhæfur á 2G kerfinu og sendir SMS skilaboð og á honum eru nokkrir einfaldir leikir. Hann er ekki með snertiskjá eða myndavél. Útlitslega er hann mjög svipaður forfeðrum sínum.

Það sem hann hefur hins vegar fram yfir alla aðra síma er fáránlega langur endingartími hverrar hleðslu. Í engri notkun endist hver hleðsla í hvorki meira né minna en 35 daga, en í samfelldri notkun endist síminn í um 12,5 klukkustundir. Síminn, sem ber nafnið Nokia 105, er líka með þeim allra ódýrustu, en hann kostar aðeins um 20 dali, eða um 2.500 krónur.

Ekki verður hins vegar hlaupið að því fyrir vesturlandabúa að nálgast símann, því hann er hugsaður fyrir nýmarkaðslönd eins og Kína, Indland, Nígeríu og Indónesíu. Þar er farsímaeign ekki nálægt því jafn almenn og í vesturheimi.

Stikkorð: Nokia  • Nokia 105