*

Bílar 23. desember 2014

Nýr sportjeppi frá Mercedes-Benz

GLE er nýr bíll frá grunni og enn eitt módelið sem þýski lúxusbílaframleiðandinn setur á markað.

Mercedes-Benz mun kynna nýjan GLE 450 AMG Coupé sportjeppa á bílasýningunni í Detroit í næsta mánuði. GLE er nýr bíll frá grunni og enn eitt módelið sem þýski lúxusbílaframleiðandinn setur á markað. Fleiri ný módel eru væntanleg frá Mercedes-Benz á næstu árum. GLE 450 AMG Coupé verður búinn 3,0 lítra V6 bensínvél með tveimur forþjöppum, sem skilar 362 hestöflum. Fleiri týpur af GLE og vélarstærðir verða án efa kynntar til leiks síðar.

Nýi sportjeppinn er með 9 gíra sjálfskiptingu með 5 akstursstillingum þ.e. „individual, comfort, slippery, sport og sport+“. Bíllinn er með loftpúðafjöðrun með „active roll stabilization“ veltivarnarbúnaði. Hann kemur á 21 tommu felgum og verður afar vel búinn m.a. með hinu háþróaða 4MATIC aldrifskerfi og nýjasta öryggisbúnaði samkvæmt upplýsingum frá Mercedes-Benz.