*

Bílar 25. febrúar 2020

Nýr tengiltvinnjepplingur frá Volvo

Yfir 50 bílar seldir áður en nýr Volvo XC40 Recharge tengiltvinnjepplingur var fumsýndur um helgina.

Nýr Volvo XC40 Recharge tengiltvinnjepplingur var frumsýndur hjá Brimborg um helgina.

Volvo XC40 er minnsti meðlimurinn í Volvo sportjeppafjölskyldunni og hefur fengið lof fyrir fallega hönnun að utan sem innan síðan hann kom á markað í fjórhjóladrifs dísilútgáfu. Bíllinn var meðal annars valinn bíll ársins í Evrópu 2019. Nú kemur hann í nýrri framdrifinni, rafhlaðinni tengiltvinnútgáfu.

Drægni Volvo XC40 Recharge á rafhlöðunni einni saman er 51-56 km samkvæmt WLTP staðlinum. Meðaleyðsla í blönduðum akstri er 2-2,4 lítrar á hundraðið og CO2 losunin er uppgefin 45-55 g/km. Tengiltvinnvélin skilar bílnum 262 hestöflum í heildina.

Dráttargeta nýja jepplingsins er 1.800 kg. Bíllinn er vel búinn staðalbúnaði og Svíarnir eru með öryggisbúnaðinn á hreinu eins og fyrri daginn. Volvo XC40 Recharge er með góða veghæð eða alls 21,1 cm sem kemur sér vel í íslenskum aðstæðum.

Forsalan á XC40 Recharge hefur gengið mjög vel samkvæmt upplýsingum frá Brimborg en yfir 50 bílar höfðu þegar selst áður en bíllinn var frumsýndur um helgina.

Stikkorð: Brimborg  • Volvo  • jepplingur  • tengiltvinnbíll  • Recharge