*

Bílar 27. febrúar 2015

Nýr Touareg frumsýndur um helgina

Nýr Touareg er talsvert breyttur frá forveranum bæði hvað varðar útlit og búnað.

Róbert Róbertsson

Nýjum Volkswagen Touareg hefur verið beðið með talsverðri eftirvæntingu enda hefur þessi jeppi frá þýska bílaframleiðandanum verið vinsæll hér á landi. Nú er biðin á enda því ný kynslóð jeppans verður frumsýnd hjá Heklu á morgun, laugardag.

Nýi jeppinn er talsvert breyttur frá forveranum bæði hvað varðar útlit og búnað. Segja má að valmöguleikarnir séu nær ótakmarkaðir í Touareg þar sem hægt er að sérsníða hann að eigin óskum. Öflugar V6 3.0 TDI vélar í samvinnu við 4Motion fjórhjóladrifið gefa jeppanum gott afl. Hægt verður að fá jeppann með íslensku leiðsögukerfi er margmiðlunartæki sem ætti að auðvelda ökumönnum að rata um landið.

VW Touareg mun einnig bjóðast með loftpúðafjöðrun og Panorama sólþaki. Með R-Line pakka fær Touareg sportlegt yfirbragð með R-line stuðara og framgrilli, krómstútum á púströrum, vindskeiði, Alcantara leðursætum og fleiru. Hægt er að gera aksturinn enn auðveldari með bílastæðaaðstoð, utanvegaaðstoð, sjálfvirkri stýringu á aðalljósum, hliðarvara og akreinavara, lyklalausu aðgengi, bakkmyndavél, 360 gráðu myndavél og snertilausri opnun á afturhlera svo fátt eitt sé nefnt.

Stikkorð: Hekla  • Volkswagen Touareg