*

Bílar 16. febrúar 2015

Nýr tvinnbíll á leiðinni frá BMW

BMW ætlar að setja á markað bíl sem á að keppa beint við Tesla Model S.

Þýski bílaframleiðandinn BMW er að þróa tvinnbíl sem ætlað er að keppa beint við rafbílinn Model S frá Tesla, að því er segir í frétt breska tímaritsins CAR. BMW er nú þegar með raf- eða tvinnbíla sem kosta meira eða minna en Tesla Model S, en nýi bíllinn verður verðlagður svipað og bandaríski rafbíllinn.

Samkvæmt frétt CAR verður hægt að hlaða tvinnbíl BMW með því að stinga honum í samband og mun hann að öllum líkindum fá nafnið i5 eða i7. Meðfylgjandi mynd er af bílnum i8 sem er mun dýrari en sá sem nú er verið að þróa.

Verður bíllinn fjögurra dyra og mun rafhlaðan duga til að keyra um 130 kílómetra vegalengd. Það er þó nokkuð minni drægni en er á rafbíl Tesla, sem nær um 335 kílómetrum á hverja hleðslu.

Stikkorð: BMW  • Rafbílar  • Tvinnbílar