*

Matur og vín 9. júlí 2015

Nýr veitingastaður á Hlemmur Square

Á Pulsu eða Pylsu má finna níu mismunandi pylsur sem allar eru handgerðar í eldhúsinu.

Á miðvikudaginn opnaði nýr veitingastaður sem kallast Pulsa, eða Pylsa, eftir því hvað fólki finnst rétt, innan veggja Hlemmur Square Luxury Hotel and Upscale Hostel. Pylsur eru í aðalhlutverki á staðnum en með óhefðbundnu sniði. Hér er ekki um að ræða hina hefðbundnu pylsu eins og Íslendingar þekkja hana heldur ægir saman áhrifum frá Þýskalandi, Íslandi og Austur Evrópu.

Á matseðlinum má finna níu mismunandi pylsur sem allar eru handgerðar inni í eldhúsi, meðal annars þýska currywurst, sjávarréttapylsu, rósmarín og epla svínapulsu, íslenska lambapulsu og bourbon nautapylsu. Auk pylsnanna er einnig að finna aðra rétti á matseðlinum eins og geitaostasalat, fisk dagsins, lambahamborgara og eftirrétti. Auk þess býður barinn á Hlemmi Square upp á hátt í 100 tegundir af bjór. Þá mun Pulsa einnig flytja inn sérvalin vín sem verða eingöngu á boðstólunum á staðnum.

Það er þjóðverjinn Klaus Ortlieb sem stendur að baki staðarins. Hann er eigandi Hlemm Square og hefur áratuga reynslu af rekstri hótela um allan heim.

Stikkorð: pulsa  • Hlemmur Square  • Klaus Ortlieb