
Volvo frumsýndi í gær nýjan Volvo XC90 og markar bíllinn stór tímamót hjá sænska bílaframleiðandanum.
Fyrirtækið hefur á undanförnum mánuðum gefið út ýmsar upplýsingar um bílinn, svo sem um öryggisstaðalbúnað hans sem fyrirtækið fullyrðir að sé sá fullkomnasti á markaðnum. Innanrými bílsins er sagt bera með sér meiri lúxus en áður hefur sést hjá Volvo og var ytra byrði bílsins svo afhjúpað í gær. Er þar um algjörlega nýja hönnunarlínu að ræða.
Fyrsta eintak bílsins fer í hendur sænska konungsins og mun knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic einnig fá afhent eintak. Sala til almennings verður opnuð á vefsíðu fyrirtækisins frá og með 3. september og munu þeir bílar sem pantaðir verða fyrst afgreiddir í febrúar 2015.