*

Tölvur & tækni 16. ágúst 2012

Nýr Windows-sími frá Nokia á leiðinni

Búist er við því að Nokia og Microsoft muni í byrjun september kynna til sögunnar nýjan Windows-síma.

Búist við því að nýr Nokia-farsími sem keyri á Windows 8-stýrikerfi líti dagsins ljós á næstu vikum. Rökin fyrir því eru sú að finnski farsímaframleiðandinn Nokia og bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft hafa blásið til sameiginlegs kynningarfundar í New York og Helsinki í Finnlandi 5. september næstkomandi. Erlendir fjölmiðlar segja fyrirtækin kappkosta að verða á undan Apple sem búist sé við að kynni nýjan iPhone-síma viku síðar.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian í dag segir, að gangi allt eftir megi reikna með að þessi nýi Windows-sími Nokia komi á markað í október.

Stephen Elop, sem tók við stýrinu hjá Nokia í september fyrir tveimur árum, hefur unnið að því hörðum höndum að snúa fyrirtækinu á farsælli mið en áður. Um það leyti sem Elop settist í forstjórastólinn var farið að sjá á Nokia í blóðugri baráttu við Apple og Samsung á farsímamarkaði. Í fyrra greindi hann svo frá því að Nokia ætli að snúa sér frá þróun Symbian-stýrikerfisins og vinna í stað þess með Microsoft að smíði stýrikerfis fyrir farsíma. 

Afraksturinn af samstarfinu leit dagsins ljóst í fyrrahaust þegar Nokia setti á markað snjallsímana Lumia 710 og Lumia 800 sem keyra á Windows 7-stýrikerfi Microsoft.

Stikkorð: Lumia 800  • Nokia  • Nokia Lumia  • Lumia 710