*

Tölvur & tækni 1. september 2013

Nýrra iPhone síma að vænta á næstu dögum

Líklegt að nýja útgáfa stýrikerfis Apple verði kynnt 10. september.

Allt bendir til þess að Apple muni kynna nýja útgáfu stýrikerfis síns fyrir iPhone og iPod, hið svonefnda iOS 7, hinn 10. september. Það verður umfangsmesta uppfærsla á stýrikerfinu frá því það kom fyrst út fyrir 6 árum, bæði hvað útlit og innvols áhrærir.

Apple lætur þó ekki þar við sitja, því sagt er að fyrirtækið muni kynna tvær nýjar gerðir iPhone: iPhone 5S og iPhone 5C. iPhone 5S verður hið nýja flaggskip iPhoneflotans. Að útliti verður það nánast eins og fyrirrennarinn, nema hvað hermt er að kynntir verði nýir litir og áferð á bakplötunni,

þar á meðal lítillega gyllt plata. Í símanum verður nýr örgjörvi, sem kvað vera þriðjungi hraðvirkari en sá síðasti, en sjálfsagt þykir mörgum þó ekki muna minna um að boðið verður að fá iPhone með talsvert meira geymslurými en áður, þó tæpast verði það nú ókeypis.

Varla ríkir þó minni spenna um hinn símann, hinn svonefnda iPhone 5C, en það mun vera einfaldari og ódýrari gerð iPhone. Hún mun þekkjast á því að bakhliðin er úr lituðu plasti með ávölum brúnum. Sagt er að Apple muni bjóða iPhone 5C í allnokkrum litum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Apple