*

Menning & listir 28. mars 2017

Nýsköpunarstuð

Stuðverk – skemmtifélag verkfræðikvenna, Crowberry Capital og Össur taka höndum saman og bjóða í nýsköpunarstuð.

Kolbrún PH

Félagatal Stuðverks telur nú hátt í 350 verkfræðimenntaðar konur. Á fimmtudaginn næstkomandi stendur félagið fyrir nýsköpunarstuði í samstarfi við Crowberry Capital og Össur.

Össur var stofnað á Íslandi árið 1971 og er nú orðið alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks og er nú leiðandi afl á heimsvísu. Crowberry Capital mun fjárfesta í ungum vaxtarfyrirtækjum, væntanlegum þekkingarfyrirtækjum framtíðarinnar og mun eitt af umræðuefnunum kvöldsin verða; hvað þarf til að byggja upp stöndugt alþjóðlegt fyrirtæki.

Markmið Stuðverks er að veita innblástur til góðra verka og skapa vettvang fyrir verkfræðimenntaðar konur til að koma saman, skiptast á hugmyndum og láta gott af sér leiða

,,Það er auðvitað ekki á hverjum degi sem þrjár öflugar konur setja á fót fjárfestingarsjóð, þarna eru á ferð flottar fyrirmyndir fyrir okkur Stuðverkskonur og við eigum von á áhugaverðu kvöldi. Okkur gefst einnig færi á að ræða við þær um markmiðasetningu, lærdóm, þróun og kjark á starfsferli og það er náttúrulega aldrei að vita nema einhver Stuðverks kona sem lumar á góðri hugmynd, fyllist innblæstri og finni kjarkinn í að stofna “Össur framtíðarinnar” að kvöldi loknu” segir Hjördís Hugrún Sigurðardóttir, formaður Stuðverks, í tilkynningu.  

Stikkorð: Össur  • Stuðverk