*

Ferðalög 1. nóvember 2015

Nýtt glæsihótel að Húsafelli

„Hér eru spennandi tækifæri í ferðaþjónustu,“ segir Unnar Bergþórsson hótelstjóri.

Róbert Róbertsson

 

Nýtt og glæsilegt hótel opnaði nýverið í hjarta Húsafellsskógar. Atriðin sem höfð voru að leiðarljósi  við  hönnun þess eru náttúra, afþreying, listir og saga.

„Það er mikil uppbygging hér á svæðinu og heilmikil fjárfesting í gangi. Hér eru mjög spennandi tækifæri í ferðaþjónustu og segja má að hótelið sé fyrsta skrefið í þeirri miklu  uppbyggingu  sem  fram undan er. Hótelið  verður stækkað og bætt verður við 12 herbergjum sem verða tilbúin  um  mitt  næsta  sumar.  Verið  er  að  vinna  að  endurbótum  á  sundlauginni  hér  við  hliðina  sem  er  ein  elsta sundlaug landsins,“ segir Unnar Bergþórsson hótelstjóri en hann er af sjöundu kynslóð þjónustubænda að Húsafelli. 

Á hótelinu eru 36 herbergi í fjórum samtengdum gistiálmum. Þar  af eru  sex svítur með setustofu  og  fallegu  baðherbergi með sturtu, tvöföldum vaski og baðkeri. Fjögur herbergi bjóða upp á aðgengi fyrir fatlaða. Verk listamannsins Páls frá Húsafelli prýða veggi herbergjanna sem og hótelbyggingarinnar allrar. 

Á neðri hæð, sem tengist með aðkomutorgi við sundlaug, golfvöll og þjónustumiðstöð, verður sett upp miðstöð náttúruskoðunar og útivistar. Þar verður aðstaða til undirbúnings jöklaferða, hellaskoðunar og gönguferða.

 

 

 

Fjallað er nánar um Hótel Húsafell í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.