*

Tölvur & tækni 1. september 2015

Nýtt snjallúr frá Samsung

Hægt verður að borga reikninga og opna bíla með Gear S2 snjallúrinu sem og nota það sem fjarstýringu fyrir heimilistæki.

Samsung hóf í dag sölu á nýju snjallúri sem nefnist Samsung Gear S2. Með þessu vonast fyrirtækið til að auka hlutdeild sína á snjallúramarkaðnum. Apple tók þennan markað traustataki þegar fyrirtækið hóf loks sölu á snjallúrum, en það gerðu þeir töluvert á eftir sínum helstu keppinautum, þar á meðal Samsung. Á öðrum ársfjórðungi seldi Apple 3,6 milljónir snjallúra.

Þrátt fyrir að símarnir frá Samsung keyri á Android stýrikerfinu mun nýja úrið ekki gera það. Það mun byggja á Tizen stýrikerfinu, sem var hannað af Samsung.

Á meðal helstu nýjunga er að hægt verður að borga reikninga (e. mobile payments) með úrinu. Einnig verður hægt að nota það sem fjarstýringu fyrir heimilistæki eins og til dæmis sjónvörp. Færst hefur vöxt að bílar séu opnaðir og settir í gang með snjalllyklum og mun úrið einnig geta gegnt því hlutverki.

Nýja úrið er með 1,2 tommu skjá og upplausnin er 360x360. Úrið er 11,4 millímetra þykkt.