*

Hitt og þetta 29. nóvember 2005

Nýtt vallarhús að Laugum

Grunnur hefur verið tekinn að nýju vallarhúsi við íþróttavöllinn á Laugum. Húsið verður 144 fermetrar að grunnfleti með millilofti. Á neðri hæð verða stór og góð geymsla, snyrtingar og búningsherbergi. Á loftinu verður rúmgóður salur með útsýni yfir völlinn.

Um er að ræða stálgrindarhús úr yleiningum með steinullareinangrun og mun það gera allan aðbúnað keppenda og gesta á íþróttamótum og öðrum viðburðum á vellinum miklu betri en hann er í dag. Auk þess má gera ráð fyrir að í framtíðinni geti íþróttahópar sótt æfingabúðir á Laugar og gist í þessu húsi þegar það verður fullbúið.

Nokkuð er treyst á sjálfboðaliða við byggingu hússins. Gert er ráð fyrir að húsið verði reist í vetur og innréttað fram að unglingalandsmótinu á Laugum um næstu verslunarmannahelgi.