*

Tölvur & tækni 23. maí 2013

Nýtt Xbox kynnt til sögunnar

Nýja Xbox leikjatölvan á að verða afþreyingarmiðstöð heimilisins.

Microsoft hefur kynnt til sögunnar nýja útgáfu af Xbox leikjatölvunni sem fengið hefur nafnið Xbox One. Tekur hún við af Xbox 360 tölvunni sem verið hefur á markaði í tæp átta ár. Tölvan mun koma út á þessu ári, en nákvæm dagsetning hefur ekki verið gefin út. Þó er hægt að hafa í huga að Xbox 360 var einnig kynnt til sögunnar í maí og kom út sex mánuðum síðar. Afar líklegt er að Microsoft muni gefa tölvuna út í tæka tíð fyrir jólavertíðina.

Töluverð eftirvænting hefur verið eftir kynningunni, en stutt er síðan Sony kynnti nýja útgáfu af PlayStation leikjatölvunni.

Segja má að með nýju Xbox tölvunni sé lengra gengið í þá átt að gera hana að allsherjar afþreyingarmiðstöð fyrir heimilið. Í gegnum tölvuna er hægt að horfa á sjónvarp og kvikmyndir, ráfa um netið, hringja Skype-símtöl og hlusta á tónlist og þetta er allt hægt að gera í einu.

Kinect hreyfinematæknin fylgir með nýju tölvunni og hefur verið uppfærð. Samkvæmt fréttum er hún mun næmnari en áður og getur t.d. numið úlnliðshreyfingar notanda.

Hægt er að gefa tölvunni raddskipanir, væntanlega aðeins á ensku, en t.d. er hægt að kveikja á henni með því að segja „Xbox on".

Ekki er nauðsynlegt að hafa tölvuna tengda í sífellu við netið, en samkvæmt frétt Kotaku verður samt að leyfa henni að tengjast netinu að minnsta kosti einu sinni á dag. Þá hafa einnig verið fluttar fréttir af því að keyptir leikir verða tengdir við notendanafn kaupandans. Ef hann vill lána félaga sínum leikinn, eða selja hann, verður sá sem við honum tekur að greiða gjald sem í tilviki nýrra leikja verður jafnhátt söluverði leiksins. Þýðir þetta í raun að verslanir sem gert hafa út á notaða leiki munu ekki lengur geta selt þá á lægra verði en nýja.

Hvað leiki varðar var nýr Call of Duty leikur kynntur til sögunnar sem og samstarf við leikjarisann EA, sem mun gefa út nýja FIFA, Madden, NBA Live og UFC leiki á næstu tólf mánuðum.

Sjá má kynningarmyndband fyrir tölvuna sjálfa hér fyrir neðan auk kynninga á Call of Duty Ghosts og nýju íþróttaleikjunum frá EA.

Tölvan sjálf

 

Call of Duty Ghosts

 

Leikirnir frá EA


Stikkorð: Microsoft  • Xbox  • Xbox One