*

Sport & peningar 26. maí 2016

Óaðfinnanlegt ástand

San Diego er smekkfull af skemmtilegum golfvöllum, en Torrey Pines ber af þeim öllum.

Bjarni Ólafsson

Golfvöllurinn Torrey Pines í San Diego í Kalíforníu er einn af frægustu golfvöllum heims, en þar er árlega haldið eitt af mótunum í PGA mótaröðinni, Farmers Insurance Open, og þá hefur US Open mótið einnig verið haldið þar.

Eins og búast má við af svo sögufrægum mótavelli er ástand hans óaðfinnanlegt. Brautirnar eru lýtalausar og hafa flauelslíka áferð. Flatir eru það sömuleiðis og eru mun hraðari en íslenskir kylfingar eiga að venjast. Fyrir fyrsta hring er í raun bráðnauðsynlegt að nýta sér æfingaaðstöðuna í hálftíma til að venjast hraðanum. Stundum virtist sem ekki þyrfti nema smá golu til að koma boltanum aftur á hreyfingu eftir að hann hafði staðnæmst.

Graskarginn, eða röffið, í kringum brautirnar leynir á sér. Íslenskur kylfingur, sem e.t.v. er vanur því að röffið samanstandi af hraungrýti og lúpínu kann að vanmeta röffið á Torrey Pines, sem er bara ökklahátt gras. Það er hins vegar svo þétt að mjög auðvelt er að týna bolta í því. Það er því gott að hafa nógu marga með sér.

San Diego er smekkfull af skemmtilegum golfvöllum, en Torrey Pines ber af þeim öllum. Eitt sem athygli vekur, þegar búið er að leika á öðrum völlum, er hversu hreinn völlurinn er. Á öðrum, annars góðum golfvöllum, er ekki aðeins að finna lauf, greinar og annað náttúrurusl, heldur einnig vindlastubba sem illa upp aldir kylfingar hafa skilið eftir. Ekkert slíkt er að sjá á Torrey Pines, sem bendir til þess að afar vel sé hugsað um völlinn.

Skröltormar á vellinum 

Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, lék á Torrey Pines vellinum í febrúar. „Völlurinn er afar sérstakur, bæði vegna sögunnar sem tengist honum, en einnig vegna þess hversu fallegur og góður völlurinn er. Það er einstakt að leika á velli þar sem svo mörg PGA og US Open mót hafa verið haldin. Man sérstaklega eftir því þegar ég var að fara að taka upphafshöggið á sjöundu holunni á suðurvellinum. Þá benti makkerinn minn mér á að á þessari holu hefði Tiger Woods unnið US Open mótið árið 2008. Þeir Woods og Rocco Mediate voru jafnir að loknum átján holum á síðasta degi og var því farið í bráðabana. Hann byrjaði og endaði á þessari sjöundu holu, þar sem Woods hafði betur, fótbrotinn og með slitin liðbönd. Það er afar skemmtilegt að leika á velli með svona sögu, þótt vissulega nái spilið hjá manni ekki sömu hæðum og hjá þessum hetjum.“ Ólafur segir að þegar hann var að spila á vellinum hefði Farmers Open PGA mótinu verið nýlokið og var völlurinn því í sérstaklega góðu ásigkomulagi. „Þetta gerði það hins vegar að verkum að röffið var einkar erfitt fyrir þá sem ekki eru atvinnumenn. Það leit e.t.v. ekki út fyrir að vera mikið, ökklahátt gras, en það var svo þétt að það hreinlega át alla bolta sem í það fóru. Maður gat nánast staðið ofan á bolta í röffinu án þess að verða var við hann.“ 

 

Stikkorð: Golf  • San Diego  • Torrey Pines  • PGA  • Farmers Insurance Open