*

Bílar 26. ágúst 2013

Öflugur E-Class með hybrid tækni

Nokkrar útlitsbreytingar hafa verið gerðar á nýjum E-Class frá Mercedes Benz.

Róbert Róbertsson

Mercedes-Benz býður nú í fyrsta skipti upp á hybrid-tækni í nýjum E-Class. E 300 BlueTEC Hybrid er með hybrid aflrás sem annars vegar er 4 sílindra, 2,2 lítra dísil túrbóvél sem skilar 204 hestöflum og togið er alls 500 Nm og hins vegar 20 kW rafmótor sem gefur bílnum aukaafl og tog á sama tíma og hann verður enn sparneytnari og umhverfismildari. Bíllinn er aðeins 7,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Eyðslan er aðeins frá 4,1 lítra á hundraðið og koltvísýringslosun aðeins 107 g/km. Rafmótorinn er afar nettur og léttur og þyngir ekki bílinn. 

E-Class mun einnig verða í boði í bensín- og dísilútfærslum. Líklegt má telja að E 250 CDI verði vinsæll með 2,2 lítra dísil túrbó vél, eins og er í hybrid bílnum, sem skilar 204 hestöflum og togar allt að 500 Nm. Eyðslan er frá 4,8 lítrum á hundraðið miðað við blandaðan akstur og koltvísýringslosun er 131 g. E-Class bílarnir koma allir með sjö þrepa stiglausri sjálfskiptingu. Þeir verða bæði boðnir í sedan- og langbaksútfærslu.

Þó nokkrar útlitsbreytingar hafa verið gerðar á nýjum E-Class. Má þar nefna nýr framendi sem gefur bílnum sérlega kraftmikinn en um leið fágaðan svip. Straumlínulagaðar línur spila stórt hlutverk og gerir það að verkum að bíllinn státar af óvenjulítilli loftmótstöðu, aðeins 0,25 sem er það lægsta í flokki lúxusbíla í þessum stærðarflokki. Innanrýmið er fagurlega hannað og umlukið þægindum og lúxus eins og Mercedes-Benz er vel þekkt fyrir. Háþróuð markmiðlunar- og akstursaðstoðarkerfi hjálpa til við að gera aksturinn bæði skemmtilegan og öruggan. Nýr E-Class er kominn til landsins og er til sýnis og sölu hjá Bílaumboðinu Öskju sem er umboðsaðili þýska lúxusbílafamleiðandans á Íslandi.