*

Sport & peningar 3. mars 2020

Ofmeta verðmæti HM félagsliða

Einn áhrifamesti maður í knattspyrnuheiminum hefur efasemdir um að nýtt HM félagsliða skili þeim tekjum sem FIFA hefur lofað.

Alejandro Domínguez, forseti suður-ameríska knattspyrnusambandsins, CONMBOL, sakar alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA, um að ofmeta verulega fjárhagslegt verðmæti heimsmeistaramóts félagsliða sem mun fara fram með breyttu sniði í Kína á næsta ári. 

Í viðtali við Financial Times segir Domínguez að FIFA hafi skapað félagsliðum falskar vonir um mótið muni skila milljörðum dollara í tekjur. „Félögin eru að búast við háum fjárhæðum en ég hef efasemdir um að markaðurinn eigi eftir að veita þá. Það er búið að skapa væntingar hjá félagsliðunum en að mínu mati erum við ekki í stöðu til að fullvissa þau um að peningarnir verði til staðar,“ sagði Domínguez. 

Eins og áður segir mun heimsmeistarakeppni félagsliða fara fram sem 24 liða mót sumarið 2021 og mun svo fara fram á fjögurra ára fresti. Hingað til hefur HM félagsliða farið þannig fram að álfumeistarar hafa einungis tekið þátt og hefur mótið farið fram í desember á hverju ári. 

Samkvæmt frétt FT þykja ummæli Domínguez sína fram á aukna spennu milli CONMBOL og Gianni Infantino, forseta FIFA  sem hefur einnig átt í deilum við evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, vegna áætlana um keppnina. 

Forsögu málsins og ástæðu ummæla Domínguez má rekja til ársins 2018 þegar Infantino fundaði leynilega með hópi fjárfesta sem innihélt m.a. japanska fjárfestingarbankann SoftBank en hópurinn ætlaði sér að leggja um 25 milljarða dollara í sameiginlegt fyrirtæki sem myndi reka HM félagsliða auk nýrrar keppni meðal landsliða. 

Áhugi hópsins á fjárfestingunni hefur síðan minnkað og ekkert orðið af henni auk þess sem aðrir áhugasamir fjárfestar eins og CVC Capital Partners hafa einnig dregið sig í hlé. Leiddi það til þess að í desember á síðasta ári hóf FIFA útboðssferli til að selja sýningarrétt að keppninni og styrktarsamninga. 

Það sem hefur svo reitt forsvarsmen UEFA og CONMBOL til reiði eru yfirlýsingar Infantino um að þau fyrirtæki sem komi að mótinu muni geta breytt fyrirkomulagi mótsins enn frekar. Í útboðsgögnunum sem Financial Times hefur undir höndum kemur m.a. fram að sé það vilji fyrirtækjanna geti þau lagt til breytingar á næstu mótum sem geti falið í sér annað fyrirkomulag m.a. hvað varðar árafjölda milli móta, hvernig liðin komast inn í mótið og hvaða lið taki þátt. 

Óttast forsvarsmenn UEFA að ný keppni muni hafa mikil áhrif á Meistaradeild Evrópu sem hingað til hefur verið virtasta keppni félagsliða á milli landa sjónvarps og auglýsingatekjur keppninnar nema um 2,5 milljörðum evra. 

Að sögn Domínguez er CONMBOL ekki á móti nýrri keppni heldur vilji sambandið að það verði framkvæmt á réttan hátt. Þá sagði hann einnig að óánægja sín hafi komið til af því að FIFA hafi átt í viðræðum við stærstu félög Suður-Ameríku án þess að hann vissi af þeim. 

Það er þó ljóst að hvorki UEFA né CONMBOL eru sátt við áætlanir FIFA. Í janúarmánuði funduðu forsvarsmenn samtakanna um að setja á fót nýja keppni sem gæti falið í sér að Intercontinental Cup verði endurvakinn en í henni keppni sterkustu lið Evrópu við sterkustu lið Suður-Ameríku. 

Stikkorð: FIFA  • HM félagsliða