*

Sport & peningar 26. maí 2013

Oft hagstætt að fá erlenda leikmenn

Liðin á landsbyggðinni meta það svo að ódýrara sé að fá góða erlenda leikmenn en íslenska til liðs við sig.

Launagreiðslur eru ekki það eina sem skiptir máli þegar kemur að því að laða leikmenn, segir Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks. Hún segir góða aðstöðu, þjálfun og umgjörð í kringum liðið einnig mikilvæga. Borghildur segir vissulega launaþrýsting í íslenska boltanum hafa verið að aukast að undanförnu. „En það er ekkert öðruvísi en er á almennum vinnumarkaði. Hann er að aukast þar,“ segir Borghildur sem tekur fram að laun í knattspyrnunni séu þó ekki nærri því sem sögusagnirnar segi til um.

„Ég fæ þrjá leikmenn frá Englandi fyrir góðan íslenskan leikmann,“ segir Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV. Hann segir félagið hafa einbeitt sér að því að fá yngri leikmenn til liðsins. Launakröfur séu oft ansi háar þegar haft er samband við góða íslenska leikmenn. Óskar segir stærsta nafn ÍBV í dag, markvörðinn David James, ekki vera kominn til liðsins fyrir peninga heldur til að byrja að þjálfa og vinna með þjálfaranum Hermanni Hreiðarssyni.

„Það er bara ótrúlegt að við skulum fá hann á þessum kjörum,“ segir Óskar sem telur komu James sannkallaðan lottóvinning fyrir félagið. Aðsókn á leiki hefur til að mynda aukist mikið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.

Stikkorð: Knattspyrna  • David James