*

Sport & peningar 30. júlí 2021

Ofurdeildin enn á dagskrá

Juventus, Real Madrid og Barcelona segja að þau muni ekki láta „hótanir“ UEFA hafa áhrif á sig.

Jóhann Óli Eiðsson

Barcelona, Real Madrid og Juventus virðast ekki hafa lagt hugmyndinni um stofnun nýrrar ofurdeildar ef marka má yfirlýsingu sem þau sendu frá sér fyrir skemmstu. Að mati félaganna er einokun Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) til þess fallin að skaða knattspyrnuna.

Fyrr á þessu ári var tilkynnt um stofnun nýrrar evrópskrar ofurdeildar en að henni stóðu, auk fyrrgreindra þriggja félaga, sex ensk félög, það er Manchesterliðin United og City, Liverpool, Chelsea, Tottenham og Arsenal. Fyrirætlanirnar mættu hins vegar mikilli andstöðu á Bretlandi og bökkuðu ensku liðin nánast jafnharðan. Hin þrjú hafa aftur á móti haldið áætlunum sínum til streitu.

Í kjölfar þess boðaði UEFA að félögin þrjú yrðu beitt refsiaðgerðum vegna þessa en þeirri ákvörðun var skotið til dómstóla sem felldu hana úr gildi. Yfirlýsingu félaganna þriggja nú má rekja til þessa. Í yfirlýsingunni kemur fram að málinu verði skotið til Evrópudómstólsins með það að marki að kanna ofan í kjölinn einræðisstöðu UEFA í evrópskri knattspyrnu.

„Okkur ber skylda til að benda á þau alvarlegu vandamál sem blasa við knattspyrnunni: UEFA hefur komið sér fyrir sem eina reglu- og framkvæmdavaldi evrópskrar knattspyrnu og lítur á sig sem eiganda hennar. Þessi einokunarstaða og hagsmunaárekstur er til þess fallinn að skaða knattspyrnuna,“ segir í yfirlýsingunni. Þar segir enn fremur að liðin sjálf eigi rétt á að stjórna eigin keppnum.

Félögin þrjú hyggjast halda áfram að vinna að stofnun Ofurdeildarinnar og munu láta „hótanir“ UEFA sem vind um eyru þjóta. Hagsmunir allra aðila, það er aðdáenda, leikmanna, þjálfara, deilda og þjóða, verði ávallt hafðir í forgrunni. Þrátt fyrir áætlanir risanna þriggja er aftur á móti óljóst hvort önnur félög fáist til að fylgja með í ljósi útreiðarinnar síðasta vor.