*

Bílar 18. júlí 2015

Ofurjeppi hlaðinn lúxus

Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins reynsluók nýjum Mercedes-Benz GL 500.

Önnur kynslóð GL var frumsýnd á bílasýningunni í París fyrir þremur árum. Má segja að eldri kynslóð hafi verið pússuð til með góðum árangri. Mest seldi bíllinn er GL 350, sem er búinn dísilvél, en hann hentar vel fyrir íslenskar aðstæður. Ofurútgáfan GL 500 kom til landsins fyrir skömmu og við nýttum okkur tækifærið og fengum að reynsluaka honum.

Eins og konungur á veginum

Það er áhrifamikið að stíga upp í þennan stóra og jeppa enda hlaðinn lúxus. Innréttingin er glæsileg og vandað vel til verka. Tilfinningin sem ökumaður óneitanlega fær við stýrið á þessum bíl er að hann sé konungur á veginum. Það fer vel um ökumann og farþega í jeppanum. Hann er stór og mjög rúmgóður. Þrátt fyrir stærðina er hann nokkuð léttur og liðugur í akstri. Ökumaðurinn hefur góða yfirsýn yfir veginn og bíllinn er rásfastur og þægilegur í akstri. Gott pláss er fyrir farþega í aftari röð og bíllinn því hentugur til ferðalaga. Hægt er að bæta við þriðju sætaröðinni með því að ýta á einn takka og þá rúmar hann sjö manns. Þar af leiðandi er gólfið í skottinu nokkuð hátt þegar sætin eru niðri en engu að síður mjög rúmgott.  

GL er mjög hljóðlátur og þótt hratt sé farið er nánast ekkert vélar- eða vindhljóð. Jeppinn er með loftpúðafjöðrun og má hækka bílinn eftir aðstæðum. Fyrir vikið verður hann fínasta torfærutæki og hann fer jafn vel með farþega á möl og malbiki. Dráttargeta GL jeppans er alls 3,5 tonn. 

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.