*

Bílar 12. ágúst 2019

Ofursportbíll frá Lotus

Breski bílaframleiðandinn Lotus kynnti nýverið í London nýjan gríðarlega öflugan rafbíl sem mun bera heitið Evija.

Breski bílaframleiðandinn Lotus kynnti nýverið í London nýjan gríðarlega öflugan rafbíl sem mun bera heitið Evija.

Lotus Evija verður með 1.972 hestafla aflrás sem gerir hann að kraftmesta bíl heims ef allt gengur eftir. Bíllinn mun komast úr kyrrstöðu í hundraðið á innan við þremur sekúndum. Bíllinn mun komast í 300 km hraða á 9 sekúndum. Hámarkshraði bílsins er gefinn upp 320 km/klst. Lotus Evija slær þar með út hinn króatíska bílaframleiðanda Rimac sem segist ná 1.888 hestöflum út úr C-two bílnum og ítalska framleiðandann Pininfarina sem segir að Battista sportbíllinn muni ná 1.900 hestöflum. Þá verður hinn sænski Koenigsegg einnig að játa sig sigraðan í augnablikinu alla vega en þar á bæ munu menn án efa reyna að koma með hraðskreiðari bíl á næstunni. Fleiri sportbílframleiðendur munu líka reyna slíkt hið sama án nokkurs vafa.

Rafknúna aflrásin í Evija er smíðuð og hönnuð í samstarfi Lotus og Williams Advanced Engineering sem er dótturfélag breska Williams formúluliðsins. Evija er aðeins 1.680 kg að þyngd sem þýðir að hann verður léttasti hreini rafbíllinn sem smíðaður hefur verið. Lotus hefur tilkynnt að einungis 130 eintök verði smíðuð af þessum rafknúna ofursportbíl sem mun kosta 1,7 milljónir punda eða sem svarar 252 milljónir króna.