*

Bílar 3. apríl 2018

Ofursportjeppi frá Maserati

Ítalski bílaframleiðandinn Maserati frumsýndi 582 hestafla sportjeppann Levante Trofeo í New York.

Maserati frumsýndi nýjan ofursportjeppa á bílasýningunni í New York sem ber heitið Levante Trofeo. Ítalski bílaframleiðandinn er þekktur fyrir að framleiða volduga bíla og hér er engin undantekning á ferðinni. Þessi nýi sportjeppi mætir öflugur til leiks. Undir óvenju stóru grillinu er feykilega öflug 3,8 lítra V8 vél sem Ferrari smíðaði í Maranello.

Vélin skilar Levante Trofeo 582 hestöflum sem kemur bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,9 sekúndum. Þetta er þrusugott afl fyrir sportjeppa. Aðeins Bentley Bentayga og Lamborghini Ursus fara hraðar í sportjeppadeildinni.

Maserati Levante Trofeo er settur til höfuðs lúxus sportjeppum þýsku, ítölsku og bresku bílaframleiðandanna. Levante Trofeo er með fjórjóladrifi og vel búinn lúxusbúnaði eins og búast má við frá Ítölunum.

Hámarskhraði bílsins er um 300 km/klst sem eru heldur ekki slæmar tölur fyrir svona stóran bíl. Þessi nýi sportjeppi mun fá mikla athygli á sýningunni í New York. Maserati fær það nú svo sem yfirleitt.

Stikkorð: Maserati  • sportjeppi  • Levante Trofeo