*

Bílar 16. ágúst 2013

Ofurtvinnbíll frá Audi

Audi-liðar eru komni með heilmikla græju á teikniborðið.

Fyrr í vikunni sögðum við frá BMW i8 tvinnsportbílnum sem er sannkallaður ofurbíll. Bæverski lúxusbílaframleiðandinn mun fá harða samkeppni frá öðrum þýskum bílaframleiðanda sem staðsettur er í Ingolstadt. Audi hefur nefnilega birt opinberlega fyrstu teikningar af Quattro Concept ofurtvinnbílnum sem verður frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði.

Bíllinn er eins og nafnið bendir til enn á hugmyndastigi en líklegt er talið að hann komi á markað seint á næsta ári eða jafnvel ekki fyrr en 2015. Bíllinn er sagður á sama undirvagni og A6 og reiknað er að hann verði með V8 tvinn túrbó vél sem afkastar 600 hestöflum. Auk þess verður hann með rafmagnsmótor sem lengir ökudrægið enn frekar. Quattro Concept mun víst eiga að skila samtals 700 hestöflum hvorki minna né meira. Það er því ljóst að þarna verður á ferðinni geggjuð græja. Hvað næst?

Stikkorð: Audi