*

Hitt og þetta 13. ágúst 2004

Ógnarstjórn

13. ágúst 2004

Fimmtudaginn 29. júlí birtist í DV merkilegur leiðari eftir Jónas Kristjánsson þar sem dregin er upp dökk mynd af íslensku dómskerfi. Tilefnið var að kona nokkur var dæmd í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að stela fatnaði að verðmæti ríflega níu þúsund kr. úr verslun. Um var að ræða einstæða móður sem hnuplaði fatnaði á dóttur sína að sögn Jónasar. Dómurinn er ?geðveikislegur" að hans mati og hann rökstyður mál sitt með marxískum tilþrifum: Þetta sé hluti ?afkáralegrar dómvenju frá miðöldum" en samkvæmt henni séu ?smávægileg auðgunarbrot undirstéttarinnar á kostnað hinna ríku [...] alvarlegri en líkamlegt ofbeldi innan undirstéttarinnar eða fjárglæfrar yfirstéttarinnar, ef þeir skipta tugum milljóna eða meiru." Þessi hugsun eigi rætur að rekja til ?gamallar yfirstéttar, er hefur litið á lögin sem hentugt tæki til að halda fátækum puplinum á mottunni". Sannarlega ógnvænleg mynd af samfélaginu, þar sem litli maðurinn má sín lítils gagnvart ?yfirstéttinni".

***

Jónas lætur þess hins vegar ekki getið, að refsing konunnar var að hluta fyrir að rjúfa skilorð fyrri dóms, en við því liggur að sjálfsögðu refsing. Hann nefnir ekki heldur að þetta var áttundi refsidómurinn sem konan hlaut á tæpum tveimur árum, sá sjötti fyrir þjófnað. Vísað er sérstaklega til þess í dóminum að refsingin sé ákveðin með hliðsjón af þessu. Samkvæmt lögum má tvöfalda refsingu frá því sem hún hefði ella orðið ef viðkomandi hefur áður brotið af sér oftar en einu sinni. Þetta tvennt veldur því að dómurinn er þyngri en almennt fyrir sambærileg brot. Í forsíðufrétt DV af þessu máli þann 20. júlí var hvergi minnst á að konan hafði rofið skilorð og dómarnir sex sem hún hafði áður hlotið eru aðeins stuttlega nefndir aftarlega í fréttinni. Sem fyrr segir nefnir Jónas hvorugt atriðið í leiðaranum. Þessar staðreyndir passa nefnilega ekki inn í það ógnarskipulag sem hann vill að fólk trúi að hér sé við lýði. Þess vegna steinþegir hann yfir þeim.

***

Fyrri dómar yfir konunni bera þess ekki merki að ?yfirstéttinni" hafi verið sérstaklega mikið í mun að koma þessum ?pupli" á bak við lás og slá. Þann 16. janúar 2002 hlaut hún 30 daga skilorðsbundinn dóm fyrir þjófnað. Hún rauf skilorðið með því að gerast aftur sek um þjófnaðarbrot og hlaut í kjölfarið þriggja mánaða dóm 5. september, aftur skilorðsbundinn. Tólf dögum síðar var hún enn dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir þjófnað, að þessu sinni óskilorðsbundið. Fjórða dóminn hlaut hún 17. desember, eins mánaðar fangelsi óskilorðsbundið. 9. apríl í fyrra var hún í fimmta sinn dæmd fyrir þjófnaðarbrot. Eitt brotanna fól í sér rof á skilorði fyrra dóms en engu að síður var fimm mánaða refsingin skilorðsbundin til þriggja ára. Enn rauf hún skilorð þess dóms og hlaut í kjölfarið sjötta dóminn; þann sem Jónasi Kristjánssyni þykir ?geðveikislegur".

***

Það er ótrúlega óskammfeilin fölsun að nefna hvorki rof á skilorði né ítrekuð fyrri brot, sem hvort tveggja á stóran þátt í ákvörðun refsingarinnar, heldur fullyrða þess í stað að konan hafi verið dæmd fyrir það eitt að hnupla einhverju smáræði af fatnaði. Einhverjir myndu jafnvel kalla skrif af þessu tagi geðveikisleg. En einhverra hluta vegna virðist mörgum ákaflega mikið í mun að halda því að Íslendingum að þeir búi við ógnarstjórn. Ógleymanleg er forsíðufrétt Fréttablaðsins um að víkingasveitin hafi ráðist með alvæpni, brauki og bramli inn í rólegt samkvæmi nokkurra ungra sakleysingja; í lok fréttarinnar var nefnt eins og rétt til gamans að fíkniefni og þýfi hefðu fundist á staðnum! Nýjasta dæmið um þetta ofsóknarbrjálæði er leiðari téðs Jónasar Kristjánssonar í vikunni þess efnis að Davíð Oddsson sé fasisti.

***

Jónas ætti að líta sér ögn nær í leit sinni að meinum samfélagsins. Blaðið sem hann skrifar í er herskátt niðurrifsblað sem svífst einskis, hvorki gagnvart háum né lágum. Nýlega bað blaðamaður DV þekktan einstakling í þjóðfélaginu að tjá sig um kunningja sinn. Viðkomandi svaraði stuttlega einni eða tveimur einföldum spurningum en neitaði að veita viðtal. Daginn eftir birti DV á áberandi stað í blaðinu ummæli eftir hann innan gæsalappa sem voru hreinn uppspuni blaðamanns! Viðkomandi gerði ekki athugasemd við blaðið og vill ekki að nafn hans komi fram hér. Hvers vegna ekki? Svarið á erindi við áhugamenn um ógnarstjórnir og fasisma: Hann vill ekki eiga yfir höfði sér árásir DV.

***

Annað dæmi er af þekktum og vinsælum skemmtikrafti sem hafði neitað DV um viðtal. Hann gaf eftir þegar blaðamaður gerði honum ljóst að blaðið myndi annars fjalla um hann á sínum eigin forsendum og ekki væri víst að sú umfjöllun yrði honum sérlega hagstæð.

***

Fleiri dæmi væri hægt að nefna um svívirðilega framkomu DV við blásaklaust fólk en því miður vilja viðkomandi ekki koma fram og eiga þannig á hættu frekari umfjöllun af hálfu blaðsins. Það verður að virða.
Um skeið voru sýndar sjónvarpsauglýsingar frá DV sem gengu út á það, að skúrkar og illmenni hvers konar skömmuðust út í blaðið og töldu sig órétti beitta. Þessa auglýsingu mætti hæglega endurgera en skipta skúrkinum út fyrir venjulegt fólk, fólk sem hefur ekkert til saka unnið, ?pupulinn" sem blaðið þykist hafa samúð með í leiðurum sínum.

***

Að lokum eitt léttvægara: Fréttablaðið birti á bls. 6 í gær frétt um að Ósló og París væru dýrustu borgir Evrópu. Byggt var á frétt úr netúgáfu norska blaðsins Aftenposten. Ekkert var fjallað um Reykjavík í fréttinni. Morgunblaðið höndlaði málið öðru vísi: Það fór í frumheimildina, könnun rannsóknarfyrirtækisins EIU fyrir tímaritið Economist, og komst að því að Reykjavík er áttunda dýrasta borg heims. Fréttin var birt á baksíðu, eðlilega. Vera má að þetta sé einfaldlega dæmi um ólík vinnubrögð. En kannski hefur Fréttablaðið ekki sérstakan áhuga á að benda á að Ósló og Kaupmannahöfn eru dýrari en Reykjavík. Eins og menn þekkja er því iðulega slegið upp í fjölmiðlum þegar niðurstaðan er á hinn veginn, t.d. að matarverð sé hærra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum - ekki síst ef Evrópusambandið blandast einhvern veginn í málið. Þetta kann að þykja langsótt kenning, en lái mér það hver sem vill á tímum þegar blekkingameistarinn Michael Moore er sagður fulltrúi ?frásagnarlistar nútímans". Þá er allt opið.