*

Tölvur & tækni 15. mars 2014

Óhætt að mæla með iOS7

Apple hefur gert mikið í því að létta stýrikerfið iOS 7.1 fyrir eldri iPhone-síma.

Notendur iPhone og iPad verða þess varir í vikunni, að það er komin ný útgáfa af stýrikerfinu iOS7, sem þeim býðst að sækja og setja inn. Ókeypis að venju.

Það er óhætt að mæla með því að menn láti verða af því að uppfæra stýrikerfið, enn hafa engir hnökrar fundist á því, en hins vegar lagar uppfærslan ýmsa vankanta, sem verið hafa á stýrikerfinu síðan iOS 7 kom út í september á síðasta ári.

Þar munar örugglega mestu um hvimleiðan bögg sem varð til þess að endurræsa þurfti stýrikerfið öðru hverju, einkum þegar hlaupið var á milli appa.

Það eru einnig talsverðar endurbætur í hinni 280 Mb uppfærslu. Þar á meðal má nefna betri og hraðari fingrafaralestur á iPhone 5S, auk þess sem að hún á að batna með tímanum við fingrafaralesturinn, en sumir hafa kvartað undan því að með tímanum virðist fingrafaralesarinn gleyma eiganda sínum. Þá má telja til ýmsa nýja kosti Siri, en hið gervigreindarlega talstýrða viðmót fær nú fleiri raddir og hreima til þess að spila úr (enska kvenröddin er mun minna pirrandi en bandaríska karlröddin).

Þegar iOS 7 kom út var útliti viðmótsins breytt afdráttarlausan hátt við mishá húrrahróp. Í þessari nýju útgáfu er margt af því slípað til, svo viðmótið er bæði skýrara og betur samræmt.

Notendum eldri símtækja, einkum iPhone 4, þótti mörgum iOS7 vera fullþungt í vöfum. Í iOS 7.1 hefur Apple gert mikið af stýrikerfinu léttara fyrir þessa síma, svo þeir virðast talsvert sprækari fyrir vikið. Vafamál er þó að vænta megi frekari uppfærslna fyrir iPhone 4, svo eigendur þeirra kunna að vilja velta fyrir sér kaupum á nýjum síma á næstu misserum.

Loks má nefna eina eiginlega nýjung í stýrikerfinu, sem er CarPlay. Það er eins konar hamur fyrir iOS, sem ætlaður er fyrir bíla, þannig að maður smellir símanum í samband við bílinn og snertiskjár í mælaborðinu verður virkur til allra nota: tónlistar, leiðsögu, símtala og svo framvegis. Til þess að það virki þarf þó að vera með rétta bílinn, glænýtt eintak frá Ferrari, Honda, Hyundai, Mercedes-Benz eða Volvo. Fleiri merkja er þó von, því BMW, Chevrolet, Citroën, Ford, Jaguar, KIA, Land Rover, Mitsubishi, Nissan, Opel, Peugeot, Subaru, Suzuki og Toyota ætla öll að bætast í hópinn á næstu mánuðum og misserum.

Stikkorð: iPhone  • iOS7