*

Ferðalög & útivist 19. maí 2013

Ókeypis hlutir fyrir ferðamenn í Bandaríkjunum

Áhugaverðustu áfangastaðir fyrir ferðamenn þurfa oft ekki að kosta krónu. Skoðum þá helstu í Bandaríkjunum.

Vefsíðan Travel and Leisure hefur tekið saman fjölmarga áfangastaði fyrir ferðamenn í Bandaríkjunum sem kostar ekkert að heimsækja. 

Nú á dögum þegar það kostar meira að segja pening að nota salerni á bensínstöð er gott að vita að það er enn von fyrir sparsama ferðamanninn. Og það eru ótrúlegustu staðir sem rukka ekki fyrir heimsóknir.

Til að sjá alla staðina hjá Travel and Leisure smellið þá hér. Skoðum nokkra staði:

The Getty Center, Los Angeles.

Á föstudögum og laugardögum er safnið opið lengi fram eftir svo þá er hægt að njóta sólarlagsins en útsýnið úr safninu er mjög fallegt. Á safninu er mjög gott safn listaverka, svo sem verk eftir Vincent van Gogh. Þegar fólk hefur fengið nóg af listinni er alltaf hægt að fara út og rölta um fallega garða og horfa á sólina setjast.

Staten Island ferjan, New York borg. 

Þó New York borg sé talin ein sú dýrasta í Bandaríkjunum er ýmislegt ókeypis í boði. Aðgangur að listasafninu MoMA er stundum ókeypis á kvöldin og oft er hægt að ná frekar góðum afslætti á miða á Broadway sýningar. En það sem er alltaf ókeypis er sigling með Staten Island ferjunni. Fallegt er að sigla með ferjunni þegar sólin sest og horfa á Frelsisstyttuna og útsýnið yfir Manhattan, Brooklyn og New Jersey.

Lincoln Park dýragarður, Chicago. 

Dýragarðurinn er opinn 365 daga á ári. Öskrin úr ljónunum heyrast í fjölbýlishúsum sem eru allt í kringum dýragarðinn. En í miðjum dýragarðinum er hægt að sleppa algjörlega við miðborgartilfinninguna með því að ganga í gegnum regnskóga og lystigarða.

 

Stikkorð: New York  • Los Angeles  • The Getty Center  • Chicago  • MoMA