*

Veiði 24. júní 2018

Ókrýndur konungur veiðiþáttanna

Eggert Skúlason heldur eftir nokkra daga út á land til að taka upp nýja þáttaröð af Sporðaköstum.

Trausti Hafliðason

„Þetta eru fjörbrotin. Tröllslegur hængurinn reynir enn einu sinni að komast aftur í dimmt og þögult öryggi í faðmi Víðidalsár en hann er senn þrotinn að kröftum. Það eru ekki margir veiðimenn sem upplifa baráttu við svona stóran lax og þeir eru enn færri sem landa slíkum skepnum. Lúther Einarsson er kallaður Lúlli kóngur í Víðidalnum. Reynsla hans og yfirvegun hafa gert hann að ókrýndum konungi veiðimanna í dalnum.“

Svona lýsti Eggert Skúlason lokabaráttu Lúthers við 23 punda hæng í Dalsárósi í veiðiþættinum Sporðaköstum undir lok síðustu aldar. Þættirnir nutu mikilla vinsælda hjá veiðimönnum og öðrum. Sá síðasti fór í loftið árið 1998 eða fyrir tuttugu árum. Nú hefur Eggert, sem margir vilja meina að sé hinn ókrýndi konungur veiðiþáttanna, ákveðið að endurtaka leikinn og er á leiðinni út á land að taka upp sex nýja þætti.

Eggert segir að þessi tuttugu ára tímamót séu í raun tilviljun.

„Ég er búinn að vera að máta þetta við mig nokkur síðustu ár,“ segir hann. „Í gegnum tíðina hafa margir hafa spurt hvort ég væri ekki til í að gera meira af þessu. Það var því búið að sá fræi sem hefur vaxið innra með mér. Það sem í raun réði úrslitum um að ég ákvað að gera þetta núna eru staðirnir sem mér bauðst að fara á. Ég hlakka hvað mest til að gera þátt þar sem við förum upp á hálendið á Norðausturlandi og veiðum stóra ránbleikju í 470 metra hæð yfir sjávarmáli. Þarna munum við veiða í vatni sem og ám og lækjum. Þegar mér stóð þetta til boða þá var það punkturinn yfir i-ið og ég ákvað að kýla á nýja seríu.“

Upptökur hefjast eftir fáeina daga

Að sögn Eggerts mun hann sjálfur framleiða þættina og segir hann að búið sé að hnýta flesta lausa enda fyrir þáttagerðina. Upptökur fara fram í sumar og segist Eggert reikna með því að þættirnir verði sýndir í sjónvarpi næsta vor.

„Það er sá árstími sem menn eru orðnir móttækilegir, komnir á ið og orðnir spenntir fyrir veiðisumrinu. Ég er reyndar ekki búinn að selja þættina en ég er í viðræðum,“ segir hann og bætir því við að nýju þættirnir með svipuðu sniði og þeir gömlu.

„Við leggjum af stað út úr bænum 26. júní,“ segir Eggert. „Við byrjum á að fara í Miðfjarðará og síðan beint í Hofsá. Þetta verða ekki þættir um mig heldur þættir um veiðimenn sem geta miðlað af reynslu sinni til annarra. Síðan snýst þetta um að segja sögu á 25 mínútum.

Allar þær tæknibreytingar sem hafa orðið, eins og drónar og kafbátar búnir myndavélum, geta hjálpað en þessi nýja tækni kemur aldrei í staðinn fyrir góða sögu. Þegar við tókum myndir undir yfirborðinu síðast þá notuðum við fiskabúr og vorum með professional- vél inni í því og síðan notuðum við líka stálbox með glugga. Ég sé jafnvel fyrir mér að nota sömu aðferð í sumar því hún reyndist okkur afar vel. Að því sögðu þá erum líka að skoða nýju tæknina og ætlum jafnvel að prófa að nota kafbát með myndavél þegar við förum í vatnaveiðina.“

Stjörnur í veiðiheiminum

Eggert segir að af sex þáttum muni tveir snúast um silungsveiði en fjórir um laxveiði.

„Eitt af því sem ég ætla að reyna að gera er að fara aftur í Víðidalinn, þar sem við gerðum líklega eftirminnilegasta þáttinn okkar á sínum tíma,“ segir hann og vísar til þáttarins þar sem Lúther veiddi stórlaxinn. „Það er býsna djarft að segja það en við ætlum að reyna að endurtaka leikinn og veiða lax í sama stærðarflokki og síðast.

Ég vil nú ekki segja frá öllu því ég vil að eitthvað komi á óvart. Þó stutt sé í að við byrjum þá er þetta líka allt enn í mótun. Eftir að ég sagði fyrst frá því að ég ætlaði að gera nokkra þætti í viðbót hefur tillögunum rignt yfir mig. Sumar þeirra eru ansi áhugaverðar og aðrar síðri eins og gengur og gerist.

Eins og ég sagði þá ætlum við í Hofsá og Miðfjarðará. Þegar við sóttum Miðfjarðará heim síðast átti hún mjög undir högg að sækja en í dag er hún ein albesta laxveiðiá landsins. Við munum að öllum líkindum einnig fara í Laxá í Dölum en þegar við fórum þangað á sínum tíma mátti veiða á maðk og gera nánast allt sem í boði var en nú er það allt breytt, sem er bara skemmtilegt. Ég sé líka fyrir mér að einn þátturinn snúist um veiðimann og að við fylgjum einum leiðsögumanni eftir. Bæði veiðimaðurinn og leiðsögumaðurinn eru stjörnur í veiðiheiminum. Báðir mjög flinkir og skemmtilegir.“

Gömlu þættirnir á VOD-ið

Í heildina voru á milli 30 og 40 Sporðakastþættir gerðir á tíunda áratugnum. Í þáttunum voru ansi margar ár sóttar heim. „Við fórum í flestar af þessum stærri ám,“ segir Eggert. „Ég man reyndar að við fórum aldrei í Laxá á Ásum, Selá og Blöndu en þar fyrir utan voru ekki margar sem við heimsóttum ekki,“ segir Eggert. „Ég komst nýlega yfir alla mastera af gömlu þáttunum og er að láta yfirfara þá á útsendingarhæft form. Vonandi koma þeir fljótlega inn á VOD-ið hjá Stöð 2 ásamt nokkrum þáttum, sem voru gerðir en fóru bara á VHS-spólur.“

Viðtalið við Eggert er að finna sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is