*

Bílar 2. maí 2018

Óku yfir Grænlandsjökul

Bílar frá Arctic Trucks óku áður ófarna leið yfir Grænlandsjökul meðal annars til þess að safna vísindalegum upplýsingum.

Bílar frá Arctic Trucks luku nýverið þeim áfanga að aka Grænlandsjökul endilangan, frá suðuroddanum og alla leið norður, alls um 3000 kílómetra leið að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi leið er ekin á bílum en leiðangurinn, sem ber heitið Expeditions 7, er farinn á þremur bílum frá Arctic Trucks. Fyrir hönd Arctic Trucks taka þeir Emil Grímsson og Torfi B. Jóhannesson þátt í leiðangrinum.

Lagt var upp frá Isortoq á suður Grænlandi þann 19. apríl, en þar rekur Stefán Magnússon hreindýrastöð, og endað í Wulff Land nyrst á Grænlandi þann 28. apríl. Erfiðlega gekk að komast af stað þar sem ís fyllti firði og því fór leiðangurinn af stað tveimur dögum síðar en áætlað hafði verið. Eftir það gekk ferðin að óskum, þó svo að ýmsar áskoranir hafi komið upp að því er kemur fram í tilkynningunni. Á leiðinni upp eftir austurströndinni þurfti leiðangurinn að fara í gegnum gríðarlega stór svæði með erfiðum snjóöldum (sastruki) sem töfðu allmikið fyrir. Þar naut leiðangurinn aðstoðar íslenska flugfélagsins Norlandair sem flutti til þeirra eldsneyti og létti þannig undir leiðangrinum.

Tilgangur leiðangursins er meðal annars að safna vísindalegum upplýsingum um veður, taka snjósýni og gera nákvæmar hæðarmælingar. Þá var komið við á DYE-2 radarstöðinni sem Bandaríkjamenn ráku í Kalda stríðinu en yfirgáfu í skyndi og lítur hún enn út eins og menn hafi rétt brugðið sér frá.

Nú er leiðangurinn á bakaleið, en þeir þurfa að aka nánast sömu leið til baka nema að endað verður í Sisimiut á vesturströnd Grænlands. Því verða samtals eknir um 6000 kílómetrar í þessum fyrsta leiðangri eftir Grænlandsjökli endilöngum og til baka. Reiknað er með að leiðangurinn komi til Sisimiut í kringum 8. maí ef allt gengur að óskum.