*

Matur og vín 10. júní 2020

Ólafsson valið í hóp 34 gina

Íslenska ginið, Ólafsson, er meðal 34 eðalgina í myndbandi fyrir alþjóðlega gindaginn sem haldinn verður á laugardag.

Alþjóðlega gindeginum verður fagnað víða um heim á laugardaginn. Þessi einiberjadrykkur, sem fyrst fara sögur af á 17. öld samkvæmt rituðum heimildum, hefur aldrei verið vinsælli en nú og framboðið af úrvalsginum er magnað.

Gindagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á heimsvísu árið 2009 en upphafskona hans heitir Emma Stokes og kemur að sjálfsögðu frá Englandi, sem er í seinni tíma heimavöllur ginsins þó uppruna þess megi mögulega rekja á aðrar slóðir. 

Emma heldur úti þekktri vefsíðu sem heitir GinMonkey og hefur staðið fyrir gerð myndbands í tilefni dagsins þar sem sjá má gin & tónik blöndu ferðast í glasi frá landi til lands. Þetta árið verður fulltrúi Íslands þar á meðal en hið glænýja gin Ólafsson var valið í hóp 34 eðalgina. Ólafsson verður þar í góðum hópi með Bombay Sapphire, Aviation, Sipsmith, Brooklyn, Herno og annarra þekktra handverksgina.

Ólafsson gin kom á markað í mars á þessu ári og heitir í höfuðið á skáldinu, þjóðræktarmanninum og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni. Ferskir tónar af fjallagrasi, blóðbergi og birki hvíla þar ofan á klassískum einiberja og síutrusávaxtagrunni.