*

Hitt og þetta 24. ágúst 2019

Ólafur fær hús Gríms rakara afhent

Fyrrverandi forseti Íslands segir minningarnar hellast yfir sig við að ganga inn í æskuheimilið á Ísafirði.

Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti Íslands hefur fengið gamla æskuheimili sitt á Ísafirði afhent eftir að hafa gengið frá kaupum á því fyrr í sumar. Segir hann í tísti að minningar frá æsku sinni hafi hellst yfir hann, en íbúar bæjarins hafi kallað húsið Grímshús, eftir föður sínum, í nærri heila öld.

Húsið sem er reisulegt hús við Túngötu 3, er klætt bláu bárujárni og blasir við yfir Sjúkrahústúninu í hjarta bæjarins þar sem þjóðhátíðar- og önnur hátíðarhöld bæjarins fara jafnan fram. Eins og fram kom í Tekjublaði Frjálsrar verslunar trónir Ólafur Ragnar enn á toppnum yfir tekjuhæstu forseta, ráðherra og alþingismenn á síðasta ári.

Húsið er í dag fjórar íbúðir, en þær voru allar í eigu Gríms á sínum tíma. Það var upphaflega byggt á Hatteyri í Álftafirði, innar í Ísafjarðardjúpinu, eftir teikningum Jóns H. Sigmundssonar af norskum sjómönnum um aldamótin 1900. Síðar var það tekið niður og endurbyggt við Túngötuna á Eyri við Skutulsfjörð eins og bærinn hét framan af, í stærri mynd þó.

Fluttu suður á 10. aldursári Ólafs

Ólafur sem fæddur er í bænum þann 14. maí árið 1943, ólst upp til 10 ára aldurs í íbúð í suðurenda hússin, en faðir hans var Grímur Kristgeirsson, rakari, jafnan kallaður Grímur rakari og Svanhildur Ólafsdóttir Hjartar húsmóður, en hann dvaldi oft á sumrum eftir það hjá ættingum móður sinnar fyrir vestan.

Grímur sjálfur fæddist í Bakkakoti í Skorradal 29. september 1897, en eftir að hafa unnið um hríð á búi foreldra sinna í Lækjarhvammi við Reykjavík og önnur störf fyrir sunnan og stundað rakaranám flutti hann til Ísafjarðar árið 1920, fyrst til starfa sem lögreglumaður.

Fjórum árum síðar stofnaði hann rakarastofu í bænum og vann við hana til 1953 er hann flutti til Reykjavíkur, en síðar rak hann rakarastofu á Keflavíkurflugvelli. Svanhildur var frá Þingeyri og giftust þau árið 1939. Þess má geta að Grímur varð einnig bæjarfulltrúi á Ísafirði og var meðal þeirra sem tóku á móti Friðriki Krónprins Danmerkur og þá Íslands, og Ingiríðar prinsessu í heimsókn þeirra til Ísafjarðar árið 1938.

Sögur ganga enn af uppeldisaðferðum Gríms

Þó erfitt sé að meta sannleiksgildi þeirrar frásagnar er sú saga stundum sögð meðal Ísfirðinga að Ólafur Ragnar hafi þótt ódæll í æsku og þá hafi faðir hans átt það til að binda hann í taumi við staur fyrir utan rakarastofuna svo hann færi sér ekki að voða.

Jafnframt er Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra sagður hafa spurt hnittilega þegar hann heyrði söguna á ferð um bæinn með ungum Sjálfstæðismönnum hver hefði eiginlega leyst hann svo mikil hlátrasköll glumdu í rútunni. Á þessum tíma höfðu þeir eldað lengi grátt silfur en síðar virðist sem þeir hafi færst nær hvorum öðrum í skoðunum.

En þrátt fyrir þessar uppeldisaðferðir Gríms rakara, er ljóst að Ólafur Ragnar á góðar minningar frá bænum og getur nú heimsótt heimabæinn sinn gamla að vild og dvalið í fallega húsinu sínu. Það er gott útsýni yfir Eyrina og pollinn sem oft er spegilsléttur svo fjallahringurinn sést jafnvel í haffletinum og yfir honum.