*

Ferðalög & útivist 7. febrúar 2013

Ólafur Laufdal: Lykillinn er að gera alltaf betur

Hótel Grímsborgir er opið allan ársins hring, meira að segja á aðfangadagskvöld.

Lára Björg Björnsdóttir

„Við höfum fengið mjög góðar umsagnir og frábæra dóma á erlendum vefsíðum svo það er nóg að gera og allt upppantað hérna hjá okkur. Það er miklu meira að gera núna heldur en í fyrra og það er vegna þessara lofsamlegu dóma sem við höfum fengið,“ segir Ólafur Laufdal en hann og kona hans Kristín Ketilsdóttir reka Hótel Grímsborgir við Sogið í Grímsnesi. 

Á Hótel Grímsborgum er boðið upp á lúxusgistingu í einbýlishúsum sem eru sex talsins. Umhverfis húsin er stór verönd með útsýni yfir sveitina. Veitingastaðurinn tekur 60 manns í sæti og er matseðillinn A la Carte. Og það er stutt að fara frá Reykjavík eða aðeins 45 mínútna keyrsla. 

Ólafur segir þetta fjórða árið sem þau hjónin reka hótelið og það er alltaf opið: „Við erum með opið allan ársins hring, meira að segja á aðfangsdagskvöld.“ Spurður hvort hann standi sjálfur vaktina segir hann svo vera: „Ég byrja vaktina í morgunmatnum og er að til miðnættis. En þetta gengur alltaf mjög vel. Og til að allt gangi vel er lykillinn að gera alltaf betur en fólk á von á. Ef gistingin er betri en fólk reiknar með, maturinn betri, þjónustan betri, þá verður fólk ánægt. Við reynum alltaf að gera betur en væntingar fólks eru. Það er þetta ekstra sem skiptir máli.“

Hótel Grímsborgir nýtur vinsælda hjá Íslendingum jafnt sem erlendum ferðamönnum: „Við erum búin að vera með um 80 til 90 stórafmæli frá því við opnuðum. Sá elsti hélt upp á 95 ára afmæli sitt,“ segir Ólafur.

 

 

 

Stikkorð: Hótel  • Ferðalög