*

Menning & listir 23. október 2014

Ólafur á meðal 100 áhrifamestu

Dansk/íslenski myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson er á meðal 100 áhrifamestu manna listheimsins að mati Art Review.

Kári Finnsson

Árlegur listi listtímaritsins Art Review yfir hundrað áhrifamestu menn innan listheimsins var birtur í gær. Efstur á lista þetta árið er Nicholas Serota, safnstjóri Tate listasafnsins í London og fast á hæla hans eru galleristarnir David Zwirner og Ivan Wirth.

Sérstaka athygli vekur að dansk/íslenski myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson snýr aftur á listann í 88. sæti en hann var síðast á meðal hundrað áhrifamestu manna listheimsins árið 2008 í fimmtugasta sæti. Í umsögn Art Review segir að Ólafur snúi ekki aðeins aftur vegna yfirstandandi sýningar hans í Louisiana safninu í Kaupmannahöfn heldur vegna þess að hann hafi „víkkað út það sem listamaður gerir“.

Þar er vísað til Little Sun verkefnis Ólafs sem hann vann í samstarfi við verkfræðinginn Frederik Ottesen. Verkefnið snýst um framleiðslu og sölu á sólarknúnum lömpum sem seldir eru ódýrir í löndum með ónægt aðgengi að rafmagni en dýrari í löndum þar sem nægt aðgengi er að rafmagni.